Meint svindl aldrei sannað

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hópur foreldra fyrrverandi nemenda í Áslandsskóla í Hafnarfirði hefur lagt fram stjórnsýslukæru til innanríkisráðuneytisins vegna ákvörðunar fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar á fundi á síðasta ári vegna meints prófasvindls. Að auki hefur verið lögð fram stjórnsýslukæra til menntamálaráðuneytisins vegna framgöngu skólastjóra Áslandsskóla gagnvart drengjum sem voru í 10. bekk skólans á síðasta ári.

Samkvæmt fundargerð fræðsluráðs var kæran kynnt á fundi ráðsins í morgun og var fræðslustjóra og lögmanni bæjarins falið að svara henni.

Í kærunni kemur fram að í maí í fyrra stóð til að vísa nítján piltum úr Áslandsskóla í þrjá daga vegna meints svindls. Voru drengirnir sakaðir um að hafa tekið myndir af prófum og birt þær á lokaðri Facebook síðu. 

Í bréfi foreldranna til ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins kemur fram að aldrei hafi verið færðar sönnur á málið. Kemur jafnframt fram gagnrýni á þau viðbrögð skólastjóra, að gjörbylta námsmati með litlum sem engum fyrirvara. Var það gert með stuðningi fræðsluráðs Hafnarfjarðar.

Telja foreldrarnir að þessi breyting hafi ekki verið réttmæt og vísa í aðalnámskrá. Þar kemur m.a. fram að gera skal grein fyrir námsmatsviðmiðum og matskvarða í skólanámskrá þannig að nemendum, foreldrum og öllum starfsmönnum skóla sé ljóst hvaða kröfur eru gerðar og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar. 

Kemur jafnframt fram að skyndilegar breytingar á námsmati skömmu fyrir skólaslit geti verið ruglandi og truflað nemendur í námi sínu. „Hér var einnig um útskriftarnema að ræða og setur svona mikil breyting á námsmati með skömmum fyrirvara óhjákvæmilega strik í reikninginn,“ segir jafnframt. 

Innanríkisráðuneytið gefur Hafnarfjarðarbæ frest til 9. apríl til að skila umsögn um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert