Íslensk tunga þykir, ólíkt hinum norrænu tungumálunum, lengi hafa getað státað af vel varðveittum orðaforða með sterk tengsl við rætur sínar í fornnorrænu máli. Nú skjóta hinsvegar ný og ný tökuorð upp kollinum, sérstaklega á samfélagsmiðlum, sem gætu ógnað íslenskunni. Þetta er niðurstaða ritgerðar málvísindamannsins, Håkan Jansson við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð.
Í frétt sænsku háskólafréttaveitunnar Expertsvar segir að Jansson hafi uppgötvað mynstur breytinga í orðanotkun íslensks samtíma þar sem ungæðisleg tökuorð tóku að birtast en að slíkt hafi verið afar sjaldgæft áður. Í fyrirsögn fréttarinnar segir að kúl, beibí og plís séu dæmi um íslensk nýyrði sem vissulega er rétt þó svo að margir fullorðnir Íslendingar kannist við þau úr æsku sinni.
„Á sama tímabili og nýju tökuorðin taka að birtast, í kringum tíunda áratuginn það er að segja, aukast ferðalög Íslendinga til útlanda og háskólanemum fjölgar,“ segir Håkan.
Í gegnum vinnu sína við íslenska-sænska orðabók leitaði hann að dæmum um orðanotkun á veraldarvefnum og varð var við fjölmörg orð sem höfðu, að sögn Expertsvar, aldrei áður verið notuð í rituðu máli.
„Orð eins og kúl, kósí, beibí, plís, gigg og pleis stuðuðu mig þar sem þau ganga gegn skírlífisviðhorfinu gagnvart orðaforðanum,“ segir Håkan. Hann varð forvitinn og hóf að kortleggja notkun tökuorðanna sem ekki passa inn í mynstur hefðbundinnar íslensku og hvernig talmál og afbrigði þess er notað í rituðu máli. Hann fór í gegnum texta úr blöðum, bloggum og vefspjöllum auk þess sem hann rannsakaði það tungumál sem notað var í íslensku útvarpi á árunum 1990, 2000 og 2010.
„Það kom í ljós að efnið innihélt orð sem viku frá hefðinni í íslensku máli og þá einna helst á þrennan hátt. Það voru talmálsorð á við abbó (afbrýðissamur, öfundsjúkur), orð sem innihéldu hluta sem voru ekki upprunalega íslenskir eins og brillisti (snilld) og bein tökuorð úr útlensku eins og frík (viðundur), segir Håkan.
Ein af ályktununum sem hann dregur er sú að tökuorð og stafsetning sem ekki passar við hefðbundna Íslensku séu einna helst ósjálfrátt notuð af einstaklingum á veraldarvefnum þar sem engir ritstjórar eða yfirlesarar stöðva hana. „Greinileg ógn við tungumálið er sú að ný tökuorð geta skapað óvissu um hvernig eigi að beygja ákveðin orð og það getur orðið til trafala í beygingarkerfinu.“