Reiðdeildin fær 40 milljónir en Aflið þrjár

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Rósa Braga

Fjármagn til Aflsins, samtaka þolenda heimilis- og kynferðisofbeldis á Akureyri, var umræðuefni þingkonu Bjartrar framtíðar, Brynhildar Pétursdóttur, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Beindi Brynhildur fyrirspurn sinni að félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir.

Gagnrýndi Brynhildur harðlega þann litla stuðning sem Aflið hefur fengið frá ríkinu, en að sögn Brynhildar hefur Aflið mest fengið fjórar milljónir á ári frá ríkinu, en samtökin hafa starfað síðustu ellefu árin. 

„Það er gríðarlega mikil sjálfboðavinna sem fer fram þarna og enginn velkist í vafa um að samtökin eru mjög mikilvæg í samvinnu og við getum sagt að lögreglan á Akureyri, sjúkrahúsið, bráðadeildin, geðdeildin og Kvennaathvarfið jafnvel hafi staðfest mikilvægi samtakanna á Akureyri. Nú ber svo við að í ár munu þau fá 3 milljónir frá ríkinu. Mér reiknast til að það séu um 2% þess fjármagns sem fer í þennan málaflokk. Þá er ég að tala um Kvennaathvarfið og Stígamót í Reykjavík, Drekaslóð og Blátt áfram,“ sagði Brynhildur og bætti við að hún skildi ekki hvernig ráðherrann geti réttlætt að Aflið fái þrjár milljónir.

„Það fóru fram hjá okkur í fjárlaganefnd einhverjar fjárveitingar í minni hlutanum í reiðdeildina í Hólaskóla upp á 40 milljónir, sem enginn bað um. Málefni Aflsins hafa verið rædd í fjárlaganefnd fram og til baka og í þingsal,“ sagði Brynhildur og spurði hvort að ráðherranum findist þetta sanngjarnt.

Í svari ráðherrans kom fram að þarna væri verið að bera Aflið við Stígamót og Kvennaathvarfið sem eru stærstu samtök landsins þegar það kemur að þolendum kynferðis- og heimilisofbeldis. Sagði hún jafnframt að styrkirnir sem fari til Aflsins og Drekaslóðarinnar komi í gegnum félagastyrki og að örlítil hækkun hafi orðið á þeim styrkjum síðan í fyrra. 

„Það komu margfaldar umsóknir frá verðugum og góðum samtökin í styrkina. Það er takmarkað fjármagn og því er reynt að fara faglega yfir þessar umsóknir,“ sagði Eygló. „Þetta var sú tillaga sem ég fékk, um að veita þessa upphæð.“

Lagði hún áherslu á aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar gegn ofbeldi sem nú er verið að vinna að. Sagði hún að til stæði að koma með í þingi hvernig ríkisstjórnin vilji styðja við þau samtök fórnarlamba ofbeldis og hvernig hægt sé að tryggja gæði  þeirrar þjónustu. 

„Það hafa komið ítrekaðar ábendingar frá Ríkisendurskoðun um að við þurfum að taka okkur á í velferðarráðuneytinu í því sem snýr að samningagerð þar sem kemur skýrt fram hver eigi að vera kjarni þjónustunnar sem félagasamtök veita.“

Var Brynhildur ekki ánægð með svar ráðherrans og sagðist gera ráð fyrir því að þurfa að koma fimm sinnum í viðbót til þess að ræða Aflið. „Ég fæ engin svör sem mér finnst vera eitthvert vit í,“ sagði þingkonan. Sagðist hún jafnframt ekki hafa skilið helminginn af því sem ráðherrann sagði. 

„Ef það er eitthvað að gæðum þjónustunnar hjá Aflinu finnst mér að það eigi bara að segja það. Staðan er þannig að Aflið hefur ekki efni á því að ráða starfsmann, þeir hafa ekki einu sinni efni á því að ráða starfsmann í hálft starf. Vissulega getur það komið niður á gæðum starfsins. Ég vil líka segja að stjórnmál snúast um forgangsröðun, forgangsröðun á peningum,“ sagði Brynhildur að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert