Sýnir aðeins afstöðu við atkvæðagreiðslu

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. Júlíus Sigurjónsson

Mikilvægt er að draga sem mest úr misnotkun á áfengi, ekki endilega aðeins neyslu. Þetta kom fram í svari heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, við fyrirspurn þingkonu VG, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, um áfengisfrumvarpið.

Í fyrirspurn Bjarkeyjar spurði hún ráðherrann hvort hann tæki undir viðhorf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þess efnis að Íslendingar eigi að halda fast við stefnu sína um einokun ríkisins á áfengi, „enda dregur slíkt úr neyslu,“ sagði Bjarkey. 

„Við búum við þann veruleika á Íslandi að áfengi er lögleg söluvara ef svo mætti segja, sömuleiðis tóbak, hvort tveggja mjög skaðlegt,“ sagði Kristján og bætti við að umræðan um áfengisfrumvarpið hefði að stærstum hluta beinst að því hvort breytingin muni auka neyslu og gera áfengi aðgengilegra fyrir fólk.

„Ég hef verið mjög hugsi yfir þeirri einföldu staðreynd að stefna ÁTVR, ríkisfyrirtækis, hefur á allmörgum síðastliðnum árum verið sú að auka aðgengi fólks að þessari löglegu söluvöru. Þegar verið er að færa út verslanir, fjölga þeim vítt og breitt um landið þá er ríkið í raun í sjálfu sér, ef taka ætti mótrökin gegn þessu, að ganga gegn þeirri yfirlýstu stefnu sem það hefur að berjast gegn misnotkun á þessum vökva,“ sagði ráðherrann. 

Bjarkey kom aftur í pontu og sagði að ráðherrann hefði ekki svarað spurningu sinni og spurði aftur hvort ráðherrann vildi auka aðgengi að áfengi enn meira og enn frekar.

„Þrátt fyrir að ÁTVR hafi verið að auka þjónustu með takmörkuðum opnunartímum þá breytir það ekki því að frumvarpið gengur út á að auka aðgengið enn frekar. Ég spyr því ráðherrann hvort það samræmist stefnu ríkisstjórnarinnar,“ sagði þingkonan.

Í svari sínu við fyrirspurn Bjarkeyjar lagði ráðherrann áherslu á gjaldtöku í Lýðheilsusjóð og kallaði það grundvallarbreytingu. 

„Það er gert ráð fyrir því að hlutdeild af áfengissölunni renni í enn meira mæli en verið hefur til lýðheilsuforvarna. Það er hluti af frumvarpinu sem hér er lagt fram. Ef ég man rétt þá held ég að gert sé ráð fyrir því að 5% af söluandvirðinu renni til lýðheilsuvarna,“ sagði Kristján Þór.

Lagði hann áherslu á að umræðan hefði frekar beinst að því að ekki mætti auka aðgengið en að þeirri fyrirbyggjandi starfsemi sem ríkinu er ætlað að veita og vinna að á þessu sviði, en það fer minna fyrir henni. „Afstaða mín til frumvarpsins kemur síðan fram þegar það kemur til atkvæða,“ sagði ráðherrann að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert