Fiskflutningabíll með fullan tengivagn af fiski í körum fór útaf í Skötufirði í gærkvöldi og valt niður í fjöru. Fiskurinn fór út um allar sveitir og var hreinsunarstarfi að ljúka um fimmleytið. Bílstjórinn slasaðist ekki alvarlega.
Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Ísafirði er ekki vitað hvað olli því að ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni en slysið var um sjöleytið í gærkvöldi. Ekki var hálka á veginum. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Ísafirði en meiðsl hans eru ekki alvarleg eins og áður sagði.
Bíllinn var með fullfermi af fisk og þar sem yfirbyggingin á tengivagninum brotnaði þá þeyttist fiskur út um allar koppagrundir og var björgunarsveitarfólk kallað út til þess að aðstoða við hreinsunarstarfið. Því lauk ekki fyrr en um fimmleytið og verið er að flytja flutningabílinn til byggða. Sjálf bifreiðin er mikið skemmd og tengivagninn einnig.