Vilja eftirlit með störfum lögreglu

Frá stofnfundi Pírataflokksins á Íslandi 2012.
Frá stofnfundi Pírataflokksins á Íslandi 2012. mbl.is/Golli

Þingflokkur Pírata hefur lagt fram tillögu að þingsályktun um sjálfstætt eftirlit með starfsháttum og starfsemi lögreglu. Með tillögunni er lagt til að unnið verði lagafrumvarp um sérstaka stofnun á vegum Alþingis sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi lögreglu.

Leggja Píratar til að við undirbúning stofnunar verði m.a. litið til þess að stofnunin myndi hefja athugun að eigin frumkvæði, taka við kærum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum, rannsaka meint brot lögreglumanna í starfi, rannsaka tilkynningar innan úr lögregluliðum um einelti og kynferðislega áreitni og rannsaka upplýsingar frá nafnlausum afhjúpendum innan lögreglu eða stjórnsýslu.

Stofnunin skuli vera sjálfstæð

Í fréttatilkynningu frá Pírötum segir að Píratar telja einnig að meta eigi hvort stofnunin geti einnig farið með ákæruvald í slíkum eftirlitsmálum og að í frumvarpinu verði kveðið sérstaklega á um sjálfstæði stofnunarinnar.

Píratar segja að vegna þeirra mikilsverðu hagsmuna sem almenningur hefur af trúverðugleika rannsókna á meintum brotum lögreglu og lögreglumanna telja þeir skynsamlegt að koma á fót eftirlitsstofnun sem sérstaklega er falið að hafa eftirlit með lögreglu og rannsaka kærur og brot lögreglumanna gegn lögum, verklagsreglum og siðareglum lögreglumanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert