Héðni Unnsteinssyni, sem starfaði lengi hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og hefur glímt við geðraskanir, var hafnað af Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þegar hann veiktist mikið sumarið 2008. Ástæða höfnunarinnar var sú að hann hafði gagnrýnt aðferðir sjúkrahússins í Kastljósi árið 2006. Héðinn var í viðtali í Kastljósi kvöldsins.
Ákvörðun Fjórðungssjúkrahússins hafði mikil áhrif á líf Héðins. Hann var nauðungarvistaður í Reykjavík eftir að hann veikstir meira eftir höfnun Fjórðungssjúkrahússins. Hann gagnrýndi í Kastljósi kvöldsins að fjölskyldumeðlimir þyrftu að skrifa undir nauðungarvistun.
„Ég vildi helst ekki leggjast inn á Landspítalann í Reykjavík því ég hafði starfað mikið með Páli Matthíassyni og fleirum sem þar störfuðu og ég hafði mjög góða reynslu af Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og vildi leggjast þar inn aftur,“ segir Héðinn í samtali við mbl.is.
Hann segir það ekki ganga upp að kerfið geti mismunað fólki eftir skoðunum þeirra.
„Það er tjáningar- og skoðunarfrelsi á Íslandi. Ég tók dæmi af sjúklingi, en nafngreindi engann, máli mínu til stuðnings. Út frá þessu viðtali metur sjúkrahúsið það sem svo að ég hafi brotið trúnað við sjúkrahúsið,“ segir Héðinn og bætir við að það sé rökvilla þar sem trúnaðurinn sé í hina áttina, starfsfólk sjúkrahússins ber trúnað gagnvart skjólstæðingum eða sjúklingum, en ekki öfugt.
„Ég sem skjólstæðingur á sjúkrahúsinu hef fullan rétt til að tjá mig um reynslu mína af sjúkrahúsinu án þess að ég sé að brjóta neinn trúnað,“ segir Héðinn. Bók Héðins, Vertu Úlfur - Wargus Esto kemur út á morgun en í bókinni lýsir Héðinn m.a. þessum samskiptum sínum við Fjórðungssjúkrahúsið.