Njósnað um makann með símanum

Tugir dæma eru um að fylgst hafi verið rafrænt með konum sem hafa leitað sér aðstoðar í Kvennaathvarfinu á undanförnum tveimur árum. Markaðssetning njósnaforrita gengur oft út á að höfða til tortryggni í garð maka en með þeim er hægt að fylgjast með öllum aðgerðum fólks og hlera nærumhverfi þess.

„Eignarhald og eftirlit hefur svosem alltaf verið partur af ofbeldi í nánum samböndum,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, því sé rökrétt að gripið sé til tækninnar þegar hún býðst í því samhengi. „Við heyrum af því í viðtölum að konur bæði vita [og grunar] til þess að notaðar hafi verið þessar leiðir til að fylgjast með þeim.“ Á síðustu tveimur árum hafa konur í tugatali haft grunsemdir eða vitneskju um að slíkum aðferðum hafi verið beitt til að fylgjast með þeim.

Misjafnt er hvernig fólk ber sig að við slíkar njósnir, ef fólk þekkir aðgangsorð maka síns eða pin númer í tölvur er auðsótt að kanna smáskilaboð, tölvupóst, símtalaskrár auk þess sem hægt er að nota staðsetningarforrit eins og „find my iPhone“ til að staðsetja fólk.

Þetta eru allt aðferðir sem eru tiltölulega algengar en með því að nota njósnaforrit á borð við MSpy, Mobi Stealth eða Flexispy er mögulegt að komast inn í síma viðkomandi og fylgjast með öllum aðgerðum sem fara fram á honum. Þá auglýsa fyrirtækin að hægt sé að koma í veg fyrir að símtöl úr vissum númerum berist í símann. Þjónustu af þessu tagi er hægt að fá í ýmsum áskriftarleiðum og með því að kaupa dýrustu gerðina af Flexispy segir fyrirtækið að viðskiptavinum sé kleift að opna fyrir míkrafóninn og myndavélina á síma maka þíns og fylgjast þannig með hvað sé að gerast í umhverfi hans.

Það fer þó eftir símum hversu auðvelt er að setja slík forrit upp í þeim, gamlir android símar þykja auðveld skotmörk bæði hvað varðar að setja forritin upp og fela slóðir þeirra en erfiðara þykir að setja njósnaforrit upp á nýjustu gerðum iPhone símanna frá Apple og fela þau.

Njósnir hluti af forræðis og skilnaðarmálum

Nokkur mál hafa komið upp hér á landi þar sem slík forrit hafa verið notuð til að opna fyrir míkrafóninn á síma þess sem njósnað er um og hlera þannig umhverfið. Hörður Helgi Helgson, lögmaður á sviði upplýsingatækniréttar, segir sífellt aukast að upp komi álitamál í tengslum við rafræna hnýsni af ýmsu tagi af hálfu maka t.a.m. þegar sótt er um nálgunarbann. „Ég myndi segja að það væri svona jafn stígandi í þessum málum en ég hef ekki heyrt af því að látið sé reyna beinlínis á þetta [snjallsímana og forritin] fyrir dómstólum.“ 

Reglulega flækjast slíkar njósnir inn í forræðis- og skilnaðarmál. Ólöglegt er að fylgjast með fólki með þessum hætti nema hugsanlega ef um er að ræða að foreldrar fylgist með börnum sínum, þá skiptir engu máli hvert eignarhaldið á tækinu sé.  

Misjafnt er hversu auðvelt er að koma slíkum forritum upp í tækjum hjá fólki en yfirleitt skilja þau eftir sig slóð af einhverju tagi sem hægt er að finna en fáir sérhæfa sig í því að leita slík forrit uppi hjá einstaklingum hér á landi. Theódór R. Gíslason, sérfræðingur í upplýsingaöryggi hjá Syndis, ráðleggur fólki að ráðfæra sig við einhvern í umhverfi sínu sem hafi tækniþekkingu vakni slíkur grunur. Þá gæti fólk einnig tilkynnt málið til persónuverndar.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að aðferðir af þessu tagi séu gjarnan (40-50%) notuð af gerendum í ofbeldissamböndum og Sigþrúður segir tímabært að fylgjast náið með hvernig þróunin verður hér á landi. Líklegt sé að spurningum um slíkar njósnir verði bætt inn í spurningalista í viðtölum athvarfsins.

Á vissum símum er hægt að fylgjast með öllum aðgerðum …
Á vissum símum er hægt að fylgjast með öllum aðgerðum sem fara fram á honum úr fjarlægð. Skjáskot
Markaðssetning njósnaforrita gengur út á að höfða til tortryggni fólks …
Markaðssetning njósnaforrita gengur út á að höfða til tortryggni fólks í garð maka. Skjáskot
Óhætt er að segja að markaðssetning Flexispy gangi ekki út …
Óhætt er að segja að markaðssetning Flexispy gangi ekki út á að höfða til göfugustu kennda fólks. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert