Níu þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um þingsköp Alþingis þess efnis að þingmál sem ekki tekst að ljúka afgreiðslu á fyrir lok löggjafarþings skuli taka upp á næsta löggjafarþingi nema flutningsmaður dragi það til baka. Orðrétt segir í frumvarpinu:
„Þingmál sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu við lok löggjafarþings skal taka upp á næsta löggjafarþingi nema flutningsmaður dragi málið til baka. Þingmál sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu við lok kjörtímabils þingsins falla niður. Fastanefndir þingsins skulu leggja fram nefndarálit í málum sem til þeirra hefur verið vísað fyrir lok hvers löggjafarþings. Fari ekki fram umræða um nefndarálit á yfirstandandi löggjafarþingi skal taka málið upp aftur á næsta löggjafarþingi.“
Fram kemur í greinargerð að það sé mat flutningsmanna að breytingar þær sem frumvarpið boði muni styrkja störf og lýðræðislega virkni þingsins. Fyrsti flutningsmaður er Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.