Lögregluvakt við eldstöðvarnar til hausts

Án efa vilja margir fara að Holuhrauni í sumar til …
Án efa vilja margir fara að Holuhrauni í sumar til að sjá nýja hraunið. Lögreglumenn standa vaktina til hausts. mbl.is/Árni Sæberg

Þó að eldgosinu í Holuhrauni sé lokið er rannsóknum vísindamanna og öryggisgæslu lögreglu á svæðinu hvergi nærri lokið. Gert er ráð fyrir að tveir til þrír lögreglumenn standi sólarhringsvakt á svæðinu allt fram á haust. Nokkur fjöldi fólks er að jafnaði í Drekagili. Bæði eru þar starfsmenn Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar við vinnu á svæðinu við að setja upp gasmæla og önnur mælitæki. Að sögn Björns Oddssonar jarðeðlisfræðings og verkefnastjóra hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra miðast hættumat við að öryggisgæsla sé á svæðinu svo óhætt sé að hleypa almenningi inn á svæðið.

„Veðurstofan þarf að vakta svæðið vegna mögulegrar gasmengunar og gosóróa vegna jarðhræringa í og við Bárðarbungu. Þá þarf að vera til rýmingaráætlun fyrir svæðið og til þess að virkja áætlunina og láta fólk vita þarf mannskapur að vera á svæðinu,“ segir Björn.

Öryggissjónarmið ráða för

Björn ítrekar að öryggissjónarmið séu að baki ákvörðuninni um að hafa lögregluna áfram á svæðinu og er vaktin á svæðinu í takt við hættumat vísindamanna sem gefur til kynna að viðvörunartími vegna atburða í og við Bárðarbungu geti verið mjög stuttur.

Um samstarf lögreglunnar og Vatnajökulsþjóðgarðs er að ræða og eru landverðir líka á staðnum. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra samhæfir aðgerðir.

Lögreglumennirnir sem standa vaktina eru úr umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra og að sögn Daníels Guðjónssonar yfirlögregluþjóns á Akureyri eru fleiri þættir en rýmingaráætlun sem kalla á slíkt eftirlit. Aukinn straumur ferðamanna með hækkandi sól er ein breytan sem höfð er með í jöfnunni.

Störfin í Drekagili

Lögreglan sinnir hinum ýmsu verkefnum á eldgosasvæðinu dags daglega og er vísindamönnum innan handar. „Það sparar þeim líka ferðirnar að vera með mælingar og myndatöku sem nýtist þeim þannig að það er reynt að samnýta þetta eins og hægt er,“ segir Daníel. Aðspurður hver kostnaðurinn sé við að hafa tvo til þrjá lögreglumenn þarna að staðaldri, segist Daníel ekki hafa þær upplýsingar á takteinum. „Þeir skila vinnuskyldu sinni þarna að hluta. Í vetur hafa þeir verið þarna að jafnaði í sex daga í einu því færðin hefur verið erfið og getur tekið allt að hálfan sólarhring að komast þangað uppeftir,“ segir hann. Daníel segir að reiknað sé með að ástæða sé til að vera með vakt á svæðinu fram á haust. „Því við eigum von á því að það verði mjög mikill ferðamannastraumur þarna í sumar og þá er hægt að bregðast skjótt við

ef frekari náttúrhamfarir verða.“ Þó liggur endanleg ákvörðun ekki fyrir um það þar sem eftir er að tryggja nauðsynlega fjárveitingu.

Vegna þessa verkefnis fékk lög-regluumdæmið fjárheimild fyrir tveimur lögreglumönnum s.l. ár og segir Daníel að vonandi verði hægt að halda þeim áfram til hausts. „Auðvitað koma inn í þetta sumarleyfi og annað en ef við höldum þessum tveimur þá eigum við að geta mannað þarna vaktir í sumar og á því teljum við fulla þörf því væntanlega verður ásókn í að skoða þetta nýja hraun.“

Sérútbúinn og breyttur trukkur

Eðli máls samkvæmt þurfa þeir sem hafa aðsetur í Drekagili að hafa jeppa til umráða enda ekki fært þangað á fólksbílum. Bílaleiga Flugleiða leigir ríkislögreglustjóra 38" breyttan Toyota Hi-Lux og var þeim bíl sérstaklega breytt fyrir þetta verkefni og hann útbúinn eftir þörfum lögreglunnar. Sá bíll er hafður uppi í Drekagili. Annar jeppi, Land Rover Defender, er leigður af öðru fyrirtæki. Þá er einnig notaður breyttur jeppi sem embættið á. Að sögn Daníels eru bílarnir leigðir á þeim samningum sem ríkið hefur við bílaleigurnar en hvert leiguverðið er fékkst ekki gefið upp. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fengust frá Ríkiskaupum eru samningarnir í formi afsláttar sem getur verið frá 20 prósentum af fyrirtækjaverðskrá bílaleiganna til fimmtíu prósenta afsláttar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert