Önnur hver króna sem Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar út er í raun eins konar styrkur þar sem einungis um helmingur þess sem lánað er út endurheimtist að raunvirði. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi í dag þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar.
Sigríður benti á að námslánaskuldir hefðu frá 2008 aukist um 73% eða úr 117 milljörðum krónu í 202 milljarða. Annars vegar vegna fjölgunar námsmanna en einnig vegna hækkunar vísitölu neysluverðs sem hækkaði námslánin eins og húsnæðislán. Ákveðið hefði verið að nota 80 milljarða króna til þess að leiðrétta forsendubrest verðtryggðra húsnæðislána. Spurði Sigríður ráðherrann hvort ekki væri ástæða til þess að grípa til hliðstæðra aðgerða vegna námslána.
Bjarni sagði í svari sínu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi húsnæðislán hefðu aðeins náð til slíkra lána. Nauðsynlegt hafi verið að bregðast við þeirri stöðu sem komin hafi verið upp í þeim efnum. Ýmislegt væri hins vegar þegar gert til þess að koma til móts við þá sem tækju námslán. Þannig væri sem fyrr segir um helmingur námslána í raun styrkur. Ástæðan væri einkum mjög hagstæð lánakjör. Það létti fólki þó vissulega ekki greiðslubyrðina. Hins vegar væri einnig sú regla fyrir hendi að afborganir byggðust á ákveðnu hlutfalli launa.
Ráðherrann sagði sjálfsagt að skoða það hvort einhverjar leiðir væru færar til þess að létta undir með greiðendum námslána ef vandinn væri jafn íþyngjandi fyrir stóran lántakenda eins og haldið hafi verið fram. Þess utan yrði að taka afstöðu til þess hversu mikið ætti að verja til þess að létta undir námsmönnum bæði á námstímanum og síðar á ævinni til viðbótar við það sem þegar væri gert. Meðal annars með ríkisháskólum þar sem væru engin eiginleg skólagjöld.
Þar kæmi sú spurning ennfremur til álita, sem til að mynda BHM hefði nefnt til sögunnar, hvernig taka ætti tillit til þess kostnaðar sem námsmenn hefðu orðið fyrir í launakjörum til framtíðar.