Styrkir rannsókn á urriða og bleikju

Mögulegur fiskvegur.
Mögulegur fiskvegur. Ljósmynd/Landsvirkjun

Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar mun styrkja umfangsmikla rannsókn á urriða- og bleikjustofnum á vatnasviði Efra-Sogs, en um er að ræða verkefni undir stjórn prófessors Sigurðar S. Snorrasonar við líffræðiskor Háskóla Íslands. Þetta kom fram í erindi Sveins Kára Valdimarssonar, líffræðings hjá Landsvirkjun, á málstofu Continental Trout Conservation Fund (CTCF) í Háskólabíói í dag, að því er segir í fréttatilkynningu Landsvirkjunar.

„Sveinn Kári segir að ítarlegra rannsókna sé þörf, áður en ákveðið verði hvort grafa eigi fyrir fiskvegi framhjá Steingrímsstöð, milli Úlfljótsvatns og Þingvallavatns. Steingrímsstöð var byggð á árunum 1954-1959 af Sogsvirkjunum. Byggingin hafði áhrif á urriðann í Efra-Sogi og kemur í veg fyrir að fiskur eigi afturkvæmt úr Úlfljótsvatni upp í Þingvallavatn. Hefur Össur Skarphéðinsson, líffræðingur og þingmaður, talað fyrir því að opnað verði milli vatnanna tveggja með fyrrnefndum fiskvegi,“ segir í fréttatilkynningunni.

Meginmarkmið verkefnisins verður að fá skýra mynd af stofnerfðabreytileika og erfðatengslum stofna urriða og bleikju á vatnasviði Efra-Sogs.

Landsvirkjun hefur leitast við að halda vatnshæð Þingvallavatns og rennsli sem stöðugustu frá árinu 1984, en þá dró mjög úr sveiflum á vatnsborðinu frá því sem áður var, þegar Þingvallavatn var notað til að miðla vatni til Sogsstöðva. Áður en þær komu til sögunnar einkenndist vatnsborðið af náttúrulegum sveiflum vegna úrkomu og leysinga.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert