Viðamiklar aðgerðir vegna „sprengingar“

Tilkynning barst til Neyðarlínunnar snemma í morgun um að „sprenging hafi orðið í efnafræðistofu“ og á bilinu 10-15 manns kynnu að hafa slasast. Voru viðbragðsaðilar ræstir og bráðamóttökunni gert viðvart. Þá fór slökkviliðið á vettvang og reisti afmengunartjald til að hreinsa eiturefni af útsettum „sjúklingum“.

Svona var staðan á Landspítalanum í Fossvogi í morgun en þar fór fram æfing í viðbrögðum við eiturefnaslysi á höfuðborgarsvæðinu. Gamall leikskóli sem ekki er í notkun og er staðsettur norðan við spítalann var í hlutverki efnafræðistofunnar, en tekið var á móti útsettum og slösuðum á bráðamóttöku.

Jón Magnús Kristjánsson, sérfræðingur á bráðadeild Landspítalans og stjórnandi æfingarinnar segir hana marka nokkur tímamót því viðbrögð við eiturefnaslysi hafa ekki verið æfð á þennan máta áður og með svo mörgum samstarfsaðilum í viðvörun, björgun, vörnum frekari skaða og meðferð slasaðra af völdum eiturefna.

Síðastliðin 5 ár hafa a.m.k. orðið þrjú eiturefnaslys og er það ljóst að talsverðra umbóta er þörf á viðbrögðum og aðstöðu til móttöku slasaðra af völdum eiturefna. Æfingunni var ætlað að yfirfara viðbragðsáætlunina, æfa viðbrögðin, slípa samhæfingu og samskipti viðbragðsaðila og greina hvar veikleikar liggja.

Bráðamóttaka Landspítala Fossvogi, Eiturefnamiðstöð LSH, Sjúkrahúsapóteki og öryggisdeild LSH í samvinnu við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Neyðarlínuna, Geislavarnir ríkisins, Sóttvarnalækni, Rauða kross Íslands og Almannavarnadeild ríkisins, komu að æfingunni. Þá tóku Skurðlæknasvið LSH, Aðgerðarsvið LSH, Gjörgæslu- og svæfingadeild og Rannsóknarsvið einnig þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert