Þingmennirnir Róbert Marshall og Birgitta Jónsdóttir eru fyrstu flutningsmenn frumvarps Bjartrar framtíðar og Pírata til heildarlaga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara. Fram kemur í fréttatilkynningu að í frumvarpinu sé meðal annars lagt til að uppljóstrarar njóti bæði efnahaglegrar og félagslegrar verndar auk verndar gegn málsóknum. Gerður sé greinarmunur á svokölluðum innri og ytri uppljóstrunum en skilyrði fyrir ytri uppljóstrun, það er uppljóstrun til fjölmiðla, sé að efnið sem miðlað er eigi erindi til almennings.
„Í íslensku þjóðfélagi hafa uppljóstrarar einnig gegnt mikilvægu hlutverki við að koma upplýsingum um misgerðir sem varða almannahagsmuni á framfæri. Þess konar mál koma reglulega til umræðu í þjóðfélaginu fyrir tilstilli fjölmiðla. Slík mál geta átt brýnt erindi til almennings en minna hefur þó farið fyrir umfjöllun um afleiðingar umfjöllunarinnar fyrir þann sem miðlaði upplýsingunum til fjölmiðla, þ.e. fyrir uppljóstrarann. Algengt er að þar hafi verið um að ræða starfsmann hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar eða mann með öðrum hætti nátengdan þeirri starfsemi sem upplýsingarnar varða í hvert sinn. Einnig er mjög algengt að starfsmaður sé látinn gjalda fyrir uppljóstrunina, svo sem að hann missi í kjölfarið starf sitt,“ segir meðal annars í greinargerð með frumvarpinu.