Mikil óánægja er að brjótast upp á yfirborðið meðal almennra félagsmanna í Samfylkingunni og VG vegna þeirrar ákvörðunar síðustu ríkisstjórnar flokkanna tveggja að heimila olíuleit á Drekasvæðinu.
Haft var eftir Dofra Hermannssyni í Morgunblaðinu í gær að margir samfylkingarmenn brugðust illa við þessari ákvörðun á sínum tíma. Sú óánægja kom í ljós á landsfundi Samfylkingar um síðustu helgi þegar yfirgnæfandi meirihluti fundarmanna studdi tillögu um að hætta beri við olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra og einn af stofnendum VG, segir ákvarðanir um olíuleit ekki hafa verið bornar undir almenna félagsmenn. Leyfi til leitar og vinnslu hafi gengið þvert gegn stefnu flokksins.
„Undirbúningurinn var mér vitanlega aldrei til umræðu innan VG 2012, en um leyfisveitingarnar var fjallað í umhverfis- og atvinnuvegaráðuneytum á vegum ráðherra flokksins. Þar var skrifað upp á leyfin, vissulega með áskorunum um varúð vegna mengunarhættu. En í grundvallaratriðum var ekki lagst gegn þessu. Þvert á móti gerðist formaður flokksins eins konar merkisberi í þessum efnum, í samkeppni við Samfylkinguna. Þarna var ekki aðeins um leit að hugsanlegum kolvetnum að ræða heldur fylgdi þessum leyfisveitingum heimild til olíuvinnslu í allt að 30 ár fram í tímann. “
Hann segir ungliða í VG hafa risið upp eftir að leyfin voru veitt.
„Í framhaldinu fóru að heyrast raddir hjá ungliðum í Vinstri grænum sem gagnrýndu þöggun og málsmeðferð flokksforystunnar. Ég hygg að þau hafi flutt tillögu þegar á árinu 2013 og síðan á flokksráðsfundi í byrjun árs 2014. Þar kváðu þau mjög skýrt á um að það yrði bundinn endi á þessar fyrirætlanir og að flokkurinn legðist gegn þeim. Í stað þess að tillagan gengi til atkvæða var henni að frumkvæði flokksforystunnar vísað til stjórnar flokksins, að ég best veit. Þetta lagðist illa í Unga vinstri græna og þau ályktuðu um málið á landsfundi sínum haustið 2014 með skörpum hætti og gagnrýndu þessa málsmeðferð,“ segir Hjörleifur en ályktunin er rifjuð upp hér til hliðar.
Hjörleifur segir að ef farið verði í vinnslu olíu og gass á norðurskautssvæðinu séu öll losunarmarkmið úr sögunni með skelfilegum afleiðingum. „Trúverðugleiki umhverfisverndarflokks sem styður slíka stefnu er þá auðvitað um leið fokinn út í veður og vind,“ segir Hjörleifur.
„Vilji almennra flokksmanna í málinu var aldrei kannaður. Mitt mat var að þeir sem teldu sig vera Vinstri græna hlytu að hafa skrifað undir stefnuyfirlýsingu okkar sem gekk út á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, sem skyldi vera meginstef í stefnu flokksins. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði, sem ég gekk út frá að allir kynnu utanbókar, ber að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis í veröldinni.“
Í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 nokkrum dögum fyrir kosningarnar 2009 var hart gengið að þér að gefa upp afstöðu þína til olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Þú virtist fá lítinn stuðning frá forystu flokksins í kjölfarið?
Telurðu að þessi afstaða VG til olíuleitar eigi þátt í að VG hafi misst fylgi til annarra flokka síðan gengið var til þingkosninga 2013?
„Já, ég held að þetta sé þáttur í því. En það er auðvitað mikil hreyfing á fylgi stjórnmálaflokkanna.“
Hefur þetta veikt vígstöðu VG?
„Það er erfitt fyrir mig að meta það, enda hef ég staðið lengi utan stjórnmálanna. Það er hins vegar ljóst að það er veruleg þörf fyrir umhverfisverndarsinnað fólk í stjórnmálunum sem er gegnheilt í umhverfisverndarmálum og skilur hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Almenningur er enda miklu meðvitaðri um þessi mál en hann var fyrir 10-15 árum.“
„Mín tilfinning er sú að sá flokkur sem treystir sér til að verða gegnheill umhverfisverndarflokkur ætti möguleika á góðri kosningu. Stundum hefur almenningsálitið farið fram úr stjórnmálunum og ég nefni þá til dæmis málefni samkynhneigðra. Almenningsálitið þvingaði flokkana inn á ákveðið spor í þeim málum. Ég hef á tilfinningunni að svipað sé að gerast núna, að almenningsálitið muni þvinga flokkana inn á umhverfisverndarspor, langt umfram það sem flokkarnir hafa sagst vera að gera fram að þessu,“ segir Kolbrún.
„Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Valhöll á Eskifirði 19.-21. september 2014, lýsir yfir sárum vonbrigðum sínum með þá málsmeðferð sem ályktun stjórnar Ungra vinstri grænna um olíuvinnslu hlaut á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ársbyrjun. Það er hreyfingu sem kennir sig við umhverfisvernd til minnkunar að geta ekki tekið einarða afstöðu gegn jafnaugljósri umhverfisvá og olíuvinnslu. Ung vinstri græn skora á Vinstrihreyfinguna – grænt framboð að standa í lappirnar og leggjast af fullum krafti gegn slíkum áformum að málsmeðferðinni lokinni,“ sagði í yfirlýsingunni sem var með fyrirsögninni „Flokksráð VG skammist sín“.