Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, segir að uppspunnin frétt sem birtist á Fésbókarsíðu Herjólfs hafi ekkert með Herjólf eða Eimskip að gera, heldur hafi aðili ótengdur fyrirtækinu birt hana í athugasemdum á Fésbókarsíðunni og spurt hvort eitthvað væri til í því sem þar kom fram.
Falsaða „fréttin“ sem viðkomandi birti lítur út eins og hún hafi birst á mbl.is með fyrirsögninni „Landeyjarhöfn opnar“. Í „fréttinni“ er vísað til einhvers sem Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar ehf., á að hafa sagt um að Landeyjahöfn yrði opnuð í dag en hún er hins vegar uppspuni frá rótum. Lex lögmannsstofa sendi Gunnlaugi Grettissyni, rekstrarstjóra Herjólfs, og Guðmundi Nikulássyni, framkvæmdastjóra innanlandssviðs Eimskips, bréf fyrir hönd umbjóðanda síns, Gunnlaugs Kristjánssonar, þar sem óskað var eftir skýringum á því hvers vegna fréttin hafi birst á Fésbókarsíðu Herjólfs. Var þar jafnframt sagt að umbjóðandi lögmannsstofunnar áskilur sér allan rétt til frekari aðgerða af þessu tilefni, þ.m.t. að leggja fram kæru vegna málsins hjá lögreglu.
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segist vel skilja að Gunnlaugur Kristjánsson sé ósáttur við að nafn hans hafi verið misnotað með þessum hætti en skilur ekki alveg hvernig Eimskip og rekstraraðilar Herjólfs eigi að bregðast við þessu.
„Við erum á sama stað og þessi maður, og mbl.is líka,“ segir Ólafur. Hann segir fréttina vera einhvern lélegan brandara sem hann verður fyrir barðinu á, líkt og hin tvö félögin, mbl.is og Herjólfur. „Við erum jafn mikil fórnarlömb í þessu máli eins og Morgunblaðið og Björgun.“
„Dýpkun Landeyjarhafnar er ekki á vegum Eimskipafélagsins og þar af leiðandi höfum við ekki lifandi upplýsingar um það hvenær höfnin verður dýpkuð, heldur er okkur tilkynnt um það með tiltölulega skömmum fyrirvara þegar menn fara í það,“ segir Ólafur og bætir við að það sé alltaf leiðinlegt þegar upplýsingavettvangur Herjólfs sé notaður til þess að birta falska frétt sem er til þess fallin að skapa falskar væntingar hjá þeim sem nota síðuna.