Georg vekur áhuga Íslenskrar erfðagreiningar

Í tilefni dagsins bauð Georg í afmælisveislu að heimili sínu …
Í tilefni dagsins bauð Georg í afmælisveislu að heimili sínu í Stykkishólmi og þangað komu vinir og vandamenn til að gleðjast með honum. Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason

Georg Ólafsson í Stykkishólmi er elstur íslenskra karlmanna en hann hélt upp á 106 ára afmæli sitt í gær, 26. mars. Fjölskylda hans fjölmennti vestur í Hólm og fagnaði með ættföðurnum á þessum merku tímamótum.

Undanfarin ár hefur Georg dvalið á Dvalarheimilinu í Stykkishólmi. Afmælisdaga heldur hann þó hátíðlega á heimili sínu að Silfurgötu 15 í Stykkishólmi. Heimilið er eins og hann skildi við það þegar hann fór á dvalarheimilið, synir hans og fjölskyldur þeirra nota það sem orlofshús og segir Georg að það þyki sér vænt um.

Georg er fæddur í Akureyjum á Gilsfirði og ólst þar upp. Fjölskylda hans flutti svo að Ögri við Stykkishólm. Frá unglingsaldri hefur Georg búið í Stykkishólmi, hann giftist Þorbjörgu Júlíusdóttur og eignuðust þau 3 syni.

Georg er mjög ern. Hann er vel með á nótunum og fylgist með því sem er að gerast í kringum hann. Hann segist vera orðinn sjóndapur og því fari hann lítið um.

Fornkapparnir í útvarpinu

Hann hlustar mikið á útvarp sem styttir honum stundir og þessa dagana er hann að hlusta á útvarpssöguna á kvöldin. Nú er verið að lesa Íslendingasögurnar og hefur hann gaman af að rifja upp sögurnar af fornköppum okkar, sem notuðu sverð og spjót, en ekki byssur eins og nú tíðkast.

Þegar hann var spurður um hverju hann þakkaði góða heilsu sína og langlífi, sagðist hann ekki geta svarað því. „Þeir hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa áhuga á að skoða mig eitthvað nánar og kannski finna þeir einhver svör við því, við sjáum til.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert