Svo virðist sem landsmenn þurfi að bíða dálítið lengur eftir vorinu. Eftir hverja lægðina á fætur annarri í vetur hafa komið nokkrir dagar þar götur og gangstéttar hafa verið auðar og höfðu starfsmenn Reykjavíkurborgar meðal annars hafist handa við að hreinsa sand af göngu- og hjólastígum.
Framundan eru aftur á móti fleiri lægðir og kuldi og mun snjórinn því ekki hverfa á braut í bráð, það verður vetrarlegt í vikunni.
Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands verður veðrið heldur óstöðugt næstu vikuna. Hlauparar munu því áfram hlaupa á stígum þöktum snjó og skíðafólk fær vonandi tækifæri til að nota skíðin meira í vetur.
Í dag er suðvestanátt með éljagangi, 10 – 18 m/sek seinnipartinn. Hiti verður í kringum frostmark. Gert er ráð fyrir að það lægi á morgun en þá snýst í norðlæga átt með snjókomu nyrst.
Svipað er upp á teningnum í Skandinavíu en þar mun víða rigna næstu daga. Von er á heldur óstöðugu veðri næstu daga og hita undir tíu stigum.
Á sunnudag:
Norðaustan 10-15 m/s NV-til og einnig á SA-landi, annars hægari vindur. Víða snjókoma eða él. Frost 0 til 7 stig, kaldast fyrir norðan.
Á mánudag:
Norðlæg átt 5-15 m/s, hvassast austast. Snjókoma eða él á NA- og A-landi, en bjartviðri S- og V-lands. Áfram kalt í veðri.
Á þriðjudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt og víða él. Frost 0 til 8 stig, mildast syðst.
Á miðvikudag:
Norðan- og norðvestanátt með éljum N-til, en björtu veðri S-lands. Kalt í veðri.
Á fimmtudag:
Snýst líklega í austanátt með snjókomu SV-til seinni partinn, annars úrkomulítið.