Tryggingafélag í skattaparadís

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Árni

Oddviti Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, gagnrýndi í gær fyriráætlanir Orkuveitu Reykjavíkur um að stofna frumtryggingafélag í skattaparadísinni Guernsey, sem er lítil eyja staðsett norðvestur af Frakklandi.

Tillaga um stofnun frumtryggingafélagsins hefur hlotið samþykki allra stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur en bíður nú samþykkis eigenda Orkuveitu Reykjavíkur sem er sameign Reykjavíkurborgar, sem fer með rúmlega 93,5 prósenta eignarhlut, Akraneskaupstaðar, sem fer með rúmlega 5,5 prósenta eignarhlut, og Borgarbyggðar, sem fer með tæplega eins prósenta eignarhlut.

Beðið eftir umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar

S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við mbl.is málið vera í eðlilegum farvegi og að Reykjavíkurborg sé ekki búin að taka ákvörðun um hvað verður.

Það er beðið eftir umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar um þetta. Málið er algjörlega í þeim farvegi sem eigendastefnan segir til um og engin ákvörðun af þessum toga verður nokkurn tíman tekin án samþykkis eigenda,“ segir Björn.

Hann segir mikilvægt að hafa öll gögn til staðar, og vísar þar til umsagnar fjármálaskrifstofu borgarinnar, til þess að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um málið.

„Við fyrstu sýn þá er ekkert rífandi stemning fyrir því að fara með eitthvað tryggingafélag í einhverja skattaparadís,“ segir Björn og bætir við að það sé ekkert óeðlilegt að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur meti það sem svo að fjárhagslegum hagsmunum Orkuveitunnar sé betur borgið með því að fara þessa leið. 

„Það getur vel verið að það séu hagsmunir Orkuveitunnar að hafa þetta í skattaparadís en stjórnvöld í Reykjavík eru ekki í því að styðja að það sé verið að fara með hluti í farveg þar sem ekki eru greiddir skattar,“ segir Björn. Ákvörðun Reykjavíkurborgar verður tekin um leið og umsögnin kemur, segir Björn en búast má við að það verði ekki fyrr en eftir páska.

S. Björn Blöndal, til hægri á myndinni.
S. Björn Blöndal, til hægri á myndinni. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert