Heilsugæsla í uppnámi

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna.
Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna. mbl.is/Júlíus

Íslendingum hefur fjölgað um tæplega þrjátíu þúsund frá því ný heilsugæslustöð var síðast tekin í notkun á höfuðborgarsvæðinu. Síðast var það Heilsugæslan Glæsibæ fyrir níu árum, árið 2006, og Heilsugæslan Fjörður þegar Heilsugæslunni í Sólvangi var skipt upp. Risastór hverfi í Reykjavík hafa risið, t.d. Grafarholtið, sem er án heilsugæslustöðvar og fólki þar er vísað á undirmannaða stöð í Árbænum. Þá segir Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, fleiri stöðvar löngu sprungnar og undirmannaðar, svo sem í Grafarvogi, Garðabæ og Mjódd. Úrbætur þola enga bið, að mati Þórarins.

Þórarinn segir heimilislækna lengi hafa talað fyrir daufum eyrum. Stjórnmálamenn hafi svo sem skilning á þörfinni en þegar komi að því að forgangsraða mæti heilsugæslan iðulega afgangi. Ef til vill stafi það af því að starfsemin þar er ekki eins afgerandi og á spítölum, þar eru ekki framkvæmdar aðgerðir upp á líf og dauða og þar liggja sjúklingar ekki á göngum vegna plássleysis.

Hann segir ekki eftir neinu að bíða. Veita þurfi fjármagni í heimilislækningar eins og viljayfirlýsingin gefur til kynna. Spýta þurfi í lófana og æskilegt sé að opnaðar verði nýjar heilsugæslustöðvar strax um næstu áramót, helst fyrr. „Biðin er orðin alltof löng, íslenska þjóðin á skilið að heilsugæslukerfið sé lagað.“

Nánar er fjallað um stöðu heimilislækninga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert