Sett var Íslandsmet í róðri í vikunni er áhöfnin á Hálfdáni Einarssyni ÍS kom að landi á fimmtudaginn með rúm 27,4 tonn úr einni sjóferð. Telst það Íslandsmet hjá báti af þessari stærð.
Var aflinn nærri því eingöngu steinbítur en mjög góður steinbítsafli hefur verið undanfarið hjá þeim bátum sem gera út frá Bolungarvík og eiga steinbítskvóta. Með gærdeginum er heildarafli bátsins í mánuðinum kominn í 182 tonn í 14 sjóferðum, en samkvæmt skipstjóra á Hálfdáni Einarssyni ÍS, Birni Elíasi Halldórssyni, er það einnig Íslandsmet.
„Við vissum að þetta væri helvíti mikið,“ segir Björn Elías í samtali við mbl.is. „Nokkrum róðrum áður fengum við 26,69 tonn og núna á fimmtudaginn vorum við að velta því fyrir okkur hvort við myndum ná metinu.“
Aðspurður hvort hann þekki ástæður þess hversu góð veiðin er segir Björn Elías ekki viss um þær. „Þetta er auðvitað mjög góð veiði. Ég veit ekki hvað það er sem veldur þessu en það er að minnsta kosti meiri fiskur í sjónum heldur en fiskifræðingar halda.“
Hér má sjá fréttir Aflafrétta, BB.is og Víkari.is um Íslandsmetið.