Reyna að byggja brú á milli kynslóðanna

Hér spjalla þeir Hjálmar Sveinsson, Árni Páll og Össur saman …
Hér spjalla þeir Hjálmar Sveinsson, Árni Páll og Össur saman á landsfundi fyrir viku. mbl.is/Eggert

„Tilgangur hlutafélagsins er að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi eins og um þá starfsemi er fjallað í lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001. Hlutafélagið skal sjá um alla umsýslu.“

Þannig hljóðar hluti 2. gr. laga um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi, (stofnun ríkisolíufélags) sem samþykkt voru mótatkvæðalaust á Alþingi þann 27. janúar sl. Allir viðstaddir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með frumvarpinu, en sjö þingmenn úr röðum vinstri grænna og pírata sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í 1. gr. ofangreindra laga segir m.a.: „ Ráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem verður að fullu í eigu ríkisins og hefur það að markmiði að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi.“

Líkt og að ofan greinir samþykktu allir viðstaddir samfylkingarþingmenn frumvarpið í janúar sl. en á landsfundi flokksins fyrir síðustu helgi varð algjör stefnubreyting hjá flokknum, þar sem í landsfundarsamþykkt undir fyrirsögninni „Náttúran er lífsnauðsyn“ segir m.a.: „Vinnsla jarðefnaeldsneytis á íslensku hafsvæði er í ósamræmi við hagsmuni Íslendinga í loftslagsmálum....Samfylkingin telur að mistök hafi verið gerð þegar leit var hleypt af stað á Drekasvæðinu. Nú þarf að vinda ofan af þeirri leit og vinnsluáformum og lýsa því yfir að Íslendingar hyggist ekki nýta hugsanlega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni.

Slík yfirlýsing verði hluti af framlagi Íslendinga til heildarsamkomulags um aðgerðir gegn loftslagsvá.“

Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum – gegn tveimur. Eins og fram kom í Morgunblaðinu á miðvikudag, var Kristján Möller annar þeirra sem greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði m.a. á Alþingi á þriðjudag: „...kemur stefnubreyting Samfylkingarinnar verulega á óvart. Hér situr í salnum fyrrverandi olíumálaráðherra, hæstv. Össur Skarphéðinsson, sem fór mikinn í því máli. En ég verð að rifja það upp að þau leyfi sem gefin voru (leyfi til olíuleitar á Drekasvæðinu – innsk. blm.) einmitt í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna voru ekki bara rannsóknarleyfið, það voru leyfi til rannsókna og vinnslu.“

Morgunblaðið hefur undanfarna daga reynt að ná sambandi við Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra, án árangurs.

Dofri Hermannsson sagði hér í Morgunblaðinu á miðvikudag að aðdragandi þessa máls væri sá að ríkisstjórn Samfylkingar og VG hefði heimilað olíuleit á Drekasvæðinu með tilheyrandi leyfum, án þess að nokkur umræða innan flokkanna hefði farið fram um málið. Því hefðu margir brugðist illa við ákvörðuninni.

Kunnugir telja að með því að samþykkja kúvendinguna, hafi þeir sem eldri og reyndari eru í flokknum, verið að bregðast við óánægju ungliðahreyfingarinnar, berja í brestina og reyna fyrir sér í brúarsmíði á milli kynslóða. Samþykkt tillögunnar hafi tvímælalaust haft þau áhrif að lægja öldur óánægju meðal ungliðanna í flokknum, þótt það sé auðvitað spurning, hversu lengi róinn í þeim röðum varir.

Aðrir gefa lítið fyrir slíkar söguskýringar og segja löngu tímabært að Samfylkingin tæki afstöðu með loftslagsvernd – um það snúist málið, ekkert annað.

Spuni um kúvendingu

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði m.a. um kúvendingu Samfylkingarinnar á Alþingi sl. þriðjdag: „...vil bara segja fyrir mig sem áhugamann um stjórnmál að ég er mjög spenntur að heyra hvaða samfylkingarspuni fer af stað núna þegar kemur að kúvendingunni í olíumálinu. Hér hafa hvorki meira né minna en aðalþungavigtarmennirnir í Samfylkingunni, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir og hv. þm. Oddný Harðardóttir, farið mikinn sem olíumálaráðherrar, lofað öllu fögru og séð alveg gríðarleg tækifæri í þessu öllu saman. Núna, ekki fyrir nokkrum árum, ekki fyrir nokkrum mánuðum, heldur 27. janúar, kom þetta mikla olíufólk og samþykkti á þinginu tillögu um ríkisolíufélag. Sem áhugamaður um stjórnmál er ég spenntur að fylgjast með því hvaða spuni fer af stað.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert