Ástand vega á höfuðborgarsvæðinu hefur versnað mikið að undanförnu og víða hafa myndast djúpar holur í götum. Mbl.is hefur borist fjöldi ábendinga um holur víða um borgina, sem hafa oft á tíðum valdið tjóni á bílum.
Við óskum hér með eftir fleiri ábendingum á netfangið netfrett@mbl.is
Jón Gíslason lenti í þeirri óskemmtileð reynslu þann 15. mars sl. að keyra yfir ljósastaur á Reykjanesbraut fyrir ofan Innri Njarðvík. Staurinn hafði fallið yfir götuna og lá þvert á hægri akrein. Hafði hann slegið út rafmagninu af öllum ljósastaurunum við þessi mislægu gatnamót.
„Það er skemmst frá því að segja að ég var á hundrað kílómetra hraða þegar ég kom að staurnum og það skipti engum togum að ég keyrði yfir staurinn,“ segir Jón, en við höggið eyðilögðust allar felgur og tvö dekk auk þess sem stýrisgangur laskaðist.
Tjónið á bíl Jóns nemur 100.000 krónum, en hann hefur enn ekki fengið svör um það frá Sjóvá hvort hann fái það bætt. Að hans sögn bíður tryggingafélagið eftir umsögn Vegagerðarinnar um hvort þeir telji sig bótaskylda.
„Mér er það með öllu óskiljanlegt hvernig Vegagerðin getur eilíflega skotið sér undan ábyrgð. Ég hélt að þeir væru ábyrgir fyrir ástandi vega og ljósastaura, hvort sem þeir vita af einhverri holu eða föllnum ljósastaur eða ekki. Þeir eiga að vita um ástand vega og fylgihluta, þeir eru jú með eftirlitsmenn um allt land,“ segir Jón.
Magnús Bjarki Stefánsson varð fyrir því óhappi að sprengja og eyðileggja tvö dekk hægra megin á bifreið sinni föstudaginn 13. mars sl. á gatnamótum Vatnagarða og Sægarða.
Magnús segist hafa staðið í stórræðum fram á dag við að koma nýjum dekkjum undir bílinn, en hann lét svo Reykjavíkurborg vita um klukkan 15:45. Var honum tjáð að ekkert yrði gert þennan daginn þar sem allir væru farnir heim. Því næst fór hann í Sjóvá og gaf skýrslu.
Þegar hann var síðan á ferð um sömu gatnamót síðar um daginn sá hann konu sem hafði lent í því nákvæmlega sama.
Loks fékk hann símtal frá Sjóvá og var tjáð að borgin væri ekki bótaskyld þar sem þeim var ekki tikynnt um holuna fyrr en klukkan 14:30 og hann hafði keyrt ofan í hana klukkan 11:30. Hringdi hann þá í borgina og fékk þar sömu upplýsingar.
„Ég er orðlaus yfir þessu viðhorfi borgaryfirvalda. Það er á þeirra ábyrgð að göturnar séu í lagi, punktur,“ segir Magnús.
Ábendingum um holur og tjón af þeirra völdum hefur rignt inn til sveitarfélaganna, Vegagerðarinnar og tryggingarfélaga að undanförnu. Skipta þessar tilkynningar orðið hundruðum og eru frá áramótum orðnar langtum fleiri en á öllu síðasta ári.
Vegagerðin er í þessum tilfellum veghaldari og hefur tjáð fólki að ekki hafi verið búið að tilkynna um holurnar áður en tjónið varð, sem firri hana ábyrgð. Veghaldarar geta í vissum tilfellum verið bótaskyldir en sönnunarbyrðin er sterk.