Auglýsa sumarstörf fyrir 365 námsmenn

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið í samræmi við tillögu Vinnumálastofnunar að verja um 150 milljónum króna úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að standa straum af átaksverkefni til að skapa störf fyrir námsmenn í sumar hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum, með líkum hætti og hefur verið gert síðastliðin fimm sumur.

Vinnumálastofnun mun sem fyrr stýra átakinu, að því er segir í frétt á vef stofnunarinnar.

Framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs nemur nú að hámarki grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta (+ 8% framlags í lífeyrissjóð) fyrir hvert starf, samtals 198.923 krónur á mánuð en ráðningartíminn er tveir mánuðir.

Vinnumálastofnun mun á næstu dögum senda bréf til forráðamanna stofnana ríkisins og sveitarfélaga þar sem þeir verða hvattir til að hefja undirbúning verkefnisins. Vonir standa til að með átakinu verði til 365 störf í sumar fyrir námsmenn sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga, 230 hjá opinberum stofunum og 135 hjá sveitarfélögum.

Gert er ráð fyrir að unnt verði að auglýsa störfin í lok apríl eða byrjun maí. Störfin verða auglýst á heimasíðu Vinnumálastofnunar og með auglýsingu í dagblöðum. Skilyrði fyrir ráðningu er að námsmenn séu að koma úr námi og að þeir séu skráðir í nám að hausti (séu á milli anna) og verði átján ára á árinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert