Jón Gnarr líklegur forsætisráðherra

Jón Gnarr.
Jón Gnarr. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Í dag á því enginn maður jafn mikla möguleika á að verða næsti forsætisráðherra og Jón Gnarr – svo fremi hann kæri sig um,“ skrifar Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Facebook. Jón Gnarr hefur sagt að hann ætli ekki að sækjast eftir embætti forseta Íslands. „Þó hefði það sannarlega verið einnar messu virði að fá húmorískan anarkista á Bessastaði þó ekki væri nema til að frelsa forsetadæmið úr þeirri sérkennilegu stöðu að vera í tíð núverandi ríkisstjórnar orðið partur af framkvæmdavaldinu,“ skrifar Össur. 

„Jóns Gnarr geta þó enn beðið mikil örlög,“ heldur Össur áfram. „Sem kunnugt er hafa Píratar siglt beggja skauta byr í mörgum síðustu skoðanakönnunum og virðist ekkert lát á. Þeir eru í dag með langmest fylgi allra flokka. Í síðustu viku urðu svo vatnaskil í pólitískri sögu best lukkaða borgarstjóra Reykvíkinga þegar hann sá ekki lengur bjarta framtíð í Bjartri framtíð. Það þurfti kannski ekki húmorista til því þó flokkurinn hafi sannarlega bjarta fortíð er framtíðin heldur dekkri. Björt framtíð hefur í undangengnum könnunum verið minnsti flokkur landsins – hvað sem síðar verður.“

Össur segir að þetta geti tæpast þýtt annað en að Jón Gnarr sé á leiðinni þangað sem hann hefur alltaf átt heima, til Píratanna. „Þá vaknar skemmtilegur möguleiki. Ég tel litlar og dvínandi líkur á að núverandi stjórn nái aftur meirihluta. Sigmundur Davíð sér eiginlega um það einsog svo margt annað. Gunnari Braga hefur sömuleiðis tekist að sameina stjórnarandstöðuna, og mér finnst líklegt að hún nái meirihluta. Þó vísast haldi Píratar ekki núverandi styrk þegar kemur til kosninga er allt eins líklegt að þeir verði stærstir stjórnarandstöðuflokkanna. Þá mun forsætisráðherrann koma úr röðum Pírata.“

Svo skrifar Össur:

„Píratar hafa margsinnis sagt að þeir vilji fara ótroðnar slóðir, og að það kæmi vel til greina að sækja ráðherraefni út fyrir raðir þingflokksins. Enginn í seilingarfjarlægð við Pírata hefur meiri reynslu til að stýra landinu en sá sem hefur stýrt höfuðborg með farsælum hætti. Það tókst Jóni Gnarr sannarlega. Passi hann að fara ekki í framboð til þings yrði hann nánast sjálfkjörinn sem reynslubolti utan þings til að fara með aðalhlutverkið á stóra sviðinu í Stjórnarráðinu. Honum mun örugglega ekki takast það verr en þeim sem stjórna landinu í dag. Ákvörðun hans um að skera á tengslin við Bjarta framtíð skilur vafalítið eftir súrt bragð í munni margra þar á bæ – en tímasetningin virtist ekki falla af himnum ofan.

Í dag á því enginn maður jafn mikla möguleika á að verða næsti forsætisráðherra og Jón Gnarr – svo fremi hann kæri sig um.“

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert