„Við bara skiljum þetta ekki, þetta er alveg ótrúlegt mál,“ segir Sigurlín Rósa Óskarsdóttir, íbúi í Gnoðarvogi, um hugmyndir borgarinnar um að opna fyrir umferð í gegn um götuna að leikskólanum Steinahlíð. Hugmyndin er að minnka slysahættu á vinsælli hjóla- og gönguleið að sögn Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar.
Hugmyndir borgarinnar, sem fela í sér breytingar á deiluskipulagi og eru nú í grenndarkynningu, ganga út á að færa umferð að leikskólanum af Suðurlandsbraut og inn í Gnoðarvog. Þannig megi minnka slysahættu á hjóla- og göngustíg sem gengur þvert á innkeyrslu að leikskólanum. Börnum var nýlega fjölgað úr 30 í 55 og því er þörf á að bæta aðgengi og fjölga bílastæðum að sögn Steinunnar Jónsdóttur leikskólastjóra.
Slys hafa orðið á hjólreiðamönnum á stígnum en íbúar á svæðinu sem hafa hafið söfnun undirskrifta til að mótmæla breytingum benda á að þar búi fjöldi barna sem verði óöruggari ef opnað verði fyrir umferð í gegnum botnlangann.
mbl.is ræddi við Sigurlín Rósu og Hjálmar í dag en hann segir að tekið verði tillit til málefnalegra athugasemda og að hugsanlega verði niðurstaðan önnur en tillögur borgarinnar gera ráð fyrir.
Hér má sjá tillögur borgarinnar.