Fékk ekki starfið vegna kynferðis

Frá ráðstefnunni.
Frá ráðstefnunni. ljósmynd/UMFÍ

„Það stakk okkur að árið 2015 þyrfti fólk ennþá að vera af ákveðnu kyni eða líta út á ákveðinn hátt til að vinna ákveðna vinnu,“ segir Aðalbjörn Jóhannsson, formaður ungmennaráðs UMFÍ.

Ung­mennaráðstefna félagsins, Ungt fólk og lýðræði, var hald­in í Stykk­is­hólmi 25.-27. mars, sl. en í ályktun sem var samþykkt þar kemur fram að ungt fólk á ráðstefnunni vilji koma á framfæri áhyggjum sínum af kynjuðum útlitsstöðlum sem ít­rekað gera vart við sig inn­an hinna ýmsu greina at­vinnu­lífs­ins.

„Það er ekki eðli­legt að um­sækj­end­ur að starfi séu metn­ir vegna kyns eða út­lits um­fram raun­veru­legr­ar getu til að sinna því starfi sem sótt er um,“ segir í ályktuninni.

Fékk ekki starfið því hann var karlmaður

Áttatíu einstaklingar á aldrinum 16-25 ára af öllu landinu sóttu ráðstefnuna, en að sögn Aðalbjarnar voru allir sammála um þetta og höfðu tekið eftir þessu. 

„Það var áberandi að fólk hafði heyrt að það væri ekki af réttu kyni,“ segir Aðalbjörn og heldur áfram: „Þarna var til dæmis einn ungur maður sem sagðist hafa sótt um í bakaríi þegar hann var nítján ára gamall, en honum var strax tjáð að hann fengi ekki starfið þar sem hann væri karlmaður.“

Þá segir hann fleiri dæmi hafa komið fram, meðal annars frá stúlku sem hafði fengið vinnu á veitingastað, en komist að því frá samstarfsfólki sínu nokkrum vikum seinna að eina ástæða þess að hún fékk starfið var sú að hún passaði í ákveðna útlitsstaðla.

Skapa meðvitað karla- og kvennastörf

„Við vildum með ályktuninni vekja athygli á þessu og gera fólk meðvitaðra um þetta,“ segir Aðalbjörn, en ályktunin var send á helstu ráðamenn landsins. „Við vildum opna augu fólks fyrir til dæmis því af hverju sjaldgæft sé að sjá stráka afgreiða í bakaríi eða hvers vegna allir séu svona fínir og fallegir á veitingastöðum.“

Þá bendir hann á að umræða um sérstök karla- og kvennastörf hafi oft á tíðum komið upp, en það sem vanti í þá umræðu sé það að atvinnurekendur beini öðru kyninu meðvitað frá - og skapi þar með meðvitað karla- og kvennastörf.

Mikilvægt að taka umræðuna alvarlegar

Í ályktuninni skor­aði félagið jafnframt á sveit­ar­fé­lög að leita meira til ung­menna og taka til­lit til þeirra skoðana á mál­efn­um sam­fé­lags­ins, einkum þeim er varða ung­menn­in sjálf. 

Þeir sem sóttu ráðstefnuna voru bæði ung­menni sem starfa í ung­mennaráðum víðsveg­ar um landið og starfs­menn sem sjá um mál­efni ung­menna í sínu sveita­fé­lagi.

Tit­ill ráðstefn­unn­ar var „Marg­ur verður af aur­um api” með það að mark­miði að fræða og skapa umræðu um skyld­ur og rétt­indi ungs fólks í at­vinnu­líf­inu. „Það þarft að fræða krakka um réttindi sín og taka þessa umræðu alvarlegar,“ segir Aðalbjörn.

Frétt mbl.is: Áhyggjur af kynjuðum útlitsstöðlum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka