Fjölskyldan má ekki koma í heimsókn

Útlendingastofnun
Útlendingastofnun mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fjölskylda manns frá Sýrlandi sem búsettur er hér á landi ásamt íslenskri eiginkonu, má ekki heimsækja þau hingað til lands.

Hjónin Guðný Harpa Hallgrímsdóttir og Mohamad Khattab biðu í tæp tvö ár eftir úrskurði um hvort ættingjar Mohamads mættu ferðast hingað til lands til að vera viðstaddir brúðkaupsveislu þeirra hjóna. Mohamad er frá Sýrlandi og þar býr fjölskylda hans. Hann kvæntist Guðnýju Hörpu í Noregi fyrir þremur árum og ákváðu þau að halda veisluna þegar þau hefðu komið sér fyrir á Íslandi.

Dagsetning veislunnar var 10. júní 2013 en enginn úr fjölskyldu Mohamads var viðstaddur þar sem gestum var synjað um vegabréfsáritun til Íslands. Hjónin kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið hafði ekki úrskurðað í málinu þegar kærunefnd útlendingamála tók til starfa í byrjun árs. Kærunefndin kvað upp úrskurð sinn í síðustu viku, þann 26. mars, og þar er hin tæplega tveggja ára ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Mohamad segir að sér þyki leitt að þetta skuli vera niðurstaðan. „Það er hryggilegt að fjölskylda mín megi ekki koma hingað til lands og fagna með okkur en það sem mér þykir nánast verra er sú lítilsvirðing og niðurlæging sem okkur var sýnd með þessum langa biðtíma. Ekkert var gert í næstum tvö ár“ segir Mohamad.

Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun vegabréfsáritunar fjölskyldunnar var kærð til innanríkisráðuneytisins fjórum mánuðum síðar en ekki var unnið í málinu fyrr en tæpu einu og hálfu ári síðar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Hjónin Guðný Harpa Hallgrímsdóttir og Mohamad Khattab
Hjónin Guðný Harpa Hallgrímsdóttir og Mohamad Khattab
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka