Millilandaflug um Egilsstaði og Akureyri

Kanna á hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvellina …
Kanna á hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Skapti Hallgrímsson

Ríkisstjórnin hefur að tillögu forsætisráðherra samþykkt að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að kanna hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. 

Starfshópurinn skal greina framkvæmdaratriði, kostnað, þátttöku einstakra ríkisstofnana/fyrirtækja, landshluta og fyrirtækja í viðkomandi landshluta og markaðssetningu. Starfshópurinn verður skipaður til þriggja mánaða og í lok starfstímans skal hann skila af sér tillögum í formi aðgerða- og kostnaðaráætlunar.

Fulltrúar frá Íslandsstofu, Isavia, innanríkisráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu munu skipa starfshópinn, ásamt fulltrúum frá ólíkum landshlutum. Fulltrúi forsætisráðuneytisins mun stýra vinnunni auk þess sem starfsmaður hópsins mun koma frá forsætisráðuneytinu.

Tæp milljón ferðamanna kom til Íslands með flugi á síðasta ári og spár gera ráð fyrir mikilli fjölgun á næstu árum. Mikill meirihluti erlendra ferðamanna heimsækir einungis suðvesturhorn landsins og aðrir landshlutar njóta síður þeirrar miklu fjölgunar ferðamanna sem orðið hefur.

Ríkisstjórnin vill stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið, enda megi þannig dreifa því álagi á náttúruna sem fylgir auknum ferðamannastraumi. Þá skapist með aukinni dreifingu tækifæri fyrir fleiri landshluta til að byggja upp víðtækari þjónustu allt árið um kring og til að styrkja inniviði samfélagsins á viðkomandi landsvæði

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka