Meðalvindhraði óvenju hár í mars

Veðurlag í mars var stórgert og meðalvindhraði óvenjuhár.
Veðurlag í mars var stórgert og meðalvindhraði óvenjuhár. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Marsmánuður var illviðra- og úrkomusamur, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert en mun skárri tíð var norðaustan- og austanlands. Hiti var vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 um land allt, en undir meðallagi síðustu tíu ára á Suður- og Vesturlandi.

Veðurlag var stórgert og meðalvindhraði óvenju hár. Oft urðu samgöngutruflanir vegna hríðarbylja, einkum á fjallvegum. Fokskaðar urðu víða, sérstaklega í óvenjuhörðu sunnanveðri þann 14. Norðurljósavirkni var mikil, einkum 17. mars 2015.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum pistli á vef Veðurstofu Íslands.

Hitinn fór hæst í 16,5 gráður í Neskaupsstað

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist +0,7 stig, +0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,0 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn +1,1 stig, +2,3 stigum yfir meðallagi 1961 til 1990 og +0,6 yfir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, +3,0 stig, en lægstur á Þverfjalli og Brúarjökli, -5,9 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, -2,9 stig. Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki 16 daga mánaðarins.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,5°C í Neskaupsstað þann 21. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Sauðanesvita þann 14., 15,1 °C. Lægsti hiti á landinu mældist -21,2 stig á Brúarjökli þann 2. Lægsti hiti í byggð mældist -17,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 3. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -14,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum – einnig þann 3.

Eitt landsdægurhámark féll í mánuðinum þegar hiti fór í 16,5 stig í Neskaupstað þ. 21. Gamla metið, 15,4 stig var sett á Hvanneyri 2005.

Úrkoma í Reykjavík 24 daga í mánuðinum

Úrkomusamt var í mánuðinum um mikinn hluta landsins en þó var úrkoma undir meðallagi víða á Norður- og Norðausturlandi.  

Úrkoma í Reykjavík mældist 137,3 mm og er það nærri 70 prósent umfram meðallag og mesta úrkoma sem mælst hefur í mars frá árinu 2000. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 131,9 mm. Það er 80 prósent umfram meðallag og það mesta í mars frá 1974. Á Akureyri mældist úrkoman 30,1 mm og er það um 30 prósent undir meðallagi. Þetta er minnsta úrkoma í mars á Akureyri síðan 2005 en var ámóta lítil í mars 2012. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 240,0 mm.

Úrkoma var meiri en áður hefur mælst í mars við Korpu, í Bolungarvík, á Gilsá í Breiðdal og Stafafelli í Lóni.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 24 í Reykjavík, 10 fleiri en í meðalári og hafa ekki verið fleiri í mars síðan 1961, jafnmargir þó 1976. Á Akureyri voru slíkir dagar 10 og er það í meðallagi.

Sólskinsstundir yfir meðaltali

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 118,5 og er það 7 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, og 10 stundum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir á Akureyri mældust 89,3 og er það 12 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Snjór var lengst af ekki mikill að magni til en samgöngur riðluðust nokkuð á vegum úti í hríðarveðrum í mánuðinum.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 14, það er 2 dögum fleiri en að meðaltali í mars á árunum 1971 til 2000. Aðeins var alhvítt í 9 daga á Akureyri, 10 dögum færri en í meðalmars.

Meðalvindhraði óvenju mikill

Meðalvindhraði var óvenju mikill, 0,9 m/s ofan við meðallag. Þetta er mesti meðalvindhraði í mars frá árinu 2000 að telja.

Vindáttir voru óstöðugar, suðlægar áttir þó ríkjandi frá þ. 4 og fram til 22. Mjög stormasamt var fram yfir þann 20. Sunnanveðrið þann 14. var sýnu verst. Fárviðri mældist þá á mörgum stöðvum í byggð en það er óvenjulegt.

Í veðrunum þann 4., 6., 10. og 13. var áttin af suðaustri eða suðri en vestlægari í veðrinu þann 16. Talsvert tjón varð í þessum veðrum, langmest þó í veðrinu þ.14., og ollu þau einnig samgöngutruflunum.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 995,7 hPa og er það -7,4 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er lægsti meðalþrýstingur í mars síðan 2007, þá var hann jafnlágur. Lægstur mældist þrýstingurinn á Rauðanúpi þann 6., 953,9 hPa. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1033,1 hPa á Fonti þann 20.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert