Ástand Landspítalans er öryggisógn

Morgunblaðið/Eggert

„Þessar hugmyndir komu mér mjög á óvart enda hef ég aldrei heyrt um þær áður,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og vísar til ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra þess efnis hvort ástæða væri til þess að kanna hvort skynsamlegt væri að reisa nýjan Landspítala á lóð Ríkisútvarpsins í Efstaleiti.

Páll segir hins vegar margt við þessa hugmynd forsætisráðherra að athuga. 

„Það er búið að velta þessu máli fram og til baka í fimmtán ár. Á þeim tíma hefur staðsetningin endurtekið verið til skoðunar og niðurstaðan hefur alltaf verið sú að það sé skást að spítalinn sé við Hringbraut,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Nefnir hann í því samhengi tvær meginástæður. Önnur er sú að við Hringbraut eru nú þegar eldri byggingar, með um 60.000 fermetra af sjúkrahúsrými, sem hægt er að nýta áfram. Hin ástæðan sem Páll nefnir er nálægt spítalans við starfsemi Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. 

Ástand spítalans er öryggisógn

Spurður út í ástand núverandi bygginga Landspítalans svarar Páll: „Ástand þeirra er orðið veruleg öryggisógn. Það þarf nýjar byggingar utan um vissa starfsemi þjóðarsjúkrahússins. [...] Þannig að allar hugmyndir sem tefja það að byggingar rísi eru slæmar.“

„Það er full ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem skapast ef við fáum ekki nýjan meðferða- og rannsóknakjarna á næstu fimm til sex árum. Þá stefnir í mikinn voða í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Afstaða okkar mótast ekki af sérstakri ást á að byggingar rísi við Hringbraut, heldur þeirri staðreynd að nýbyggingar verða að rísa sem allra allra fyrst og það að breyta áformum mun tefja málið mikið. Eigi veldur sá er varar,“ segir Páll.  

Forsætisráðherra sagði í gær að forsendur fyrir staðarvali nýja spítalans við Hringbraut hafi breyst mikið á síðustu misserum. Var í því samhengi nefnt að fasteignaverð hafi hækkað mikið í miðbænum og nágrenni spítalans.

Spurður út í þessi sjónarmið svarar Páll: „Vangaveltur út frá fasteignaverði og lóðaverði, sem sveiflast upp og niður, eru veigalitlar í samhengi við þá miklu öryggishagsmuni sem hér eru í húfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka