Efndir fylgi orðum stjórnmálamanna

Guðlaugur Þór Þórðar­son.
Guðlaugur Þór Þórðar­son. mbl.is/Ómar

„Við eigum að geta gert betur og ég hef trú á því að við munum gera það,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is og vísar til niðurstöðu nýjasta þjóðarpúls Gallups um fylgi flokka.

Þar mælist Sjálfstæðisflokkur stærstur með 25% fylgi á meðan hinn ríkisstjórnarflokkurinn, þ.e. Framsóknarflokkur, mælist með 10,8% fylgi. Í síðustu alþingiskosningum fékk Sjálfstæðisflokkur 26,7% atkvæða og Framsóknarflokkur 24,4%. 

„Það má, miðað við þær fylgissveiflur sem nú eru í gangi, færa rök fyrir því að við getum vel við unað. En við eigum og verðum að gera betur. Sjálfstæðisflokkurinn verður að vera stærri en þetta,“ segir Guðlaugur Þór.

Aðspurður segir Guðlaugur Þór sóknarfærin fyrst og fremst að finna í þeim gildum sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir. 

„Ég held að ábyrgð í ríkisfjármálum, aukið valfrelsi, einfaldara skattkerfi með lægri sköttum og ráðdeild í ríkisrekstri sé það sem fólk vill sjá. Ef við höldum áfram á þeirri braut sem við erum og gerum betur þá mun það skila sér í næstu kosningum og um leið fyrir þjóðina.“

Flokkur Pírata, sem í síðustu alþingiskosningum fékk 5,1%, mælast nú næststærsti stjórnmálaflokkur landsins með um 22% fylgi.

Spurður út í þessa miklu fylgisaukningu við Pírata svarar Guðlaugur Þór: „Píratar hafa gert margt ágætt í sinni stjórnmálabaráttu en ég held að þetta séu nú líka skilaboð til hefðbundinna stjórnmálaflokka,“ segir hann og bætir við að kjósendur séu með þessu að biðja stjórnmálamenn um að orðum þeirra fylgi efndir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert