Gjörbreytt landslag í stjórnmálum

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við erum í raun að bæta við okkur [fylgi] miðað við kosningarnar þar sem við fengum 8,3 prósent svo við erum að halda okkar hlut og gott betur,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is og vísar í máli sínu til niðurstöðu nýjasta þjóðarpúls Gallups um fylgi stjórnmálaflokka.

Þar mælist Björt framtíð með 10,9% og er það ríflega tveimur prósentustigum minna en í síðasta mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins með 25% fylgi og Píratar næstir á eftir með um 22%.

Spurður hvort hann telji flokk sinn eiga inni frekara fylgi kveður Guðmundur já við. „Það má heldur ekki gleyma því að það er nú ekki gefið að nýr flokkur nái að festa sig í sessi líkt og við höfum gert. Þó fylgið rokki upp og niður hefur nú ekki farið fyrir okkur eins og svo mörgum öðrum nýjum flokkum,“ segir hann.

Guðmundur segir aðspurður mikla fylgisaukningu Pírata að undanförnu jákvæða þróun. „Staða okkar og Pírata sýnir að um 30 til 40 prósent vilja kjósa aðra flokka. Það er því gjörbreytt landslag í pólitíkinni og það sem mér finnst hafa gerst undanfarin 10 til 15 ár er það að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur með neina yfirburðastöðu. Þetta tveggja turna módel er því ekki lengur til staðar í pólitíkinni.“

Guðmundur segir því þá breytingu sem átt hefur sér stað í stjórnmálum að undanförnu, þ.e. að kjósendur virðast nú viljugri en áður til þess að flakka á milli stjórnmálaflokka, vera mjög af hinu góða. „Stjórnmál eiga ekki að vera trúarbrögð. Fólk á að kjósa þá sem tala fyrir lausnum og af skynsemi hverju sinni.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert