Tefla í afskekktasta bænum

Skákfélagið Hrókurinn stendur nú fyrir skákhátíð í Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorpi Grænlands. Hátíðin hófst á fjöltefli Hrafns Jökulssonar við börn og ungmenni í bænum en skákkunnátta er hvergi jafnalmenn á Grænlandi og þar.

Þorpið er á 70. breiddargráðu á austurströndinni og þar búa liðlega 400 manns. Hrókurinn hefur heimsótt Ittoqqortormiit um hverja páska í áratug, að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Hrókurinn byrjaði landnám skáklistarinnar á Grænlandi árið 2003 og nú stendur þrettánda starfsár félagsins á Grænlandi yfir.

Hátíð Hróksins í Ittoqqortoormiit stendur alla páskana. Á föstudag verður haldið stórmót um meistaratign bæjarins, þar sem öll börnin fá páskaegg frá Bónus og fleiri vinninga. Á laugardag verður Norlandair-mótið haldið og þar verða vinningar frá prjónahópi Rauða krossins og íslenskum fyrirtækjum, auk þess sem öll börn fá glaðning frá Nóa Síríusi. Á mánudag verður svo haldinn „Dagur vináttu Íslands og Grænlands“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert