Aðeins einn hljóp apríl

Lorenzo tekur glaðbeittur við veggspjaldi og menningarkorti.
Lorenzo tekur glaðbeittur við veggspjaldi og menningarkorti. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Aðeins einn féll fyrir aprílgabbi Reykjavíkurborgar í ár, en Listasafn Reykjavíkur og Menningarkortið áttu gabbið að þessu sinni. Var það á þann veg að Listasafnið hugðist gefa hluta af safnkostinum vegna plássleysis.

Lorenzo Imola, frá Rimini á Ítalíu, var sá eini sem féll fyrir tilkynningunni. Mætti hann galvaskur í Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu og hugðist velja sér listaverk til að taka heim. Hugsaði hann sér gott til glóðarinnar að eignast íslenska list fyrst Listasafnið væri að grisja safnkostinn, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.

Kom þá á daginn að tilkynningin var aprílgabb. Lorenzo, sem nemur listfræði við Háskóla Íslands, tók þó vel í uppátækið. Var hann leystur út með menningarkorti Reykjavíkurborgar og veggspjaldi frá Listasafninu, og fór því ekki tómhentur heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert