Lögreglan hafði engin afskipti þegar hið árlega páskabingó Vantrúar fór fram á Austurvelli í dag. Formaður félagsins, Sindri Guðjónsson, segir að bingóspjöldin hafi ekki reynst vera nógu mörg fyrir gesti bingósins. „Við vorum með 73 spjöld og höfðu börnin forgang á að fá spjöld. Margir þurftu þó að deila spjaldi en ég tel að alls hafi þarna verið saman komnir um 130 manns.“
Vel viðraði til bingóspilunar á Austurvelli í dag þrátt fyrir slæma veðurspá. Segir í tilkynningu frá félaginu að þetta sé líklegast níunda sönnun þess að veðurguðirnir Aþena, Júpíter, Njörður og Þór séu hliðholl bingóspili á þessum tiltekna degi, en bingóið hefur verið haldið árlega síðan árið 2007.
Tilgangurinn með Páskabingói Vantrúar er að mótmæla helgidagalöggjöfinni, sem félagið telur vera eina birtingarmynd óeðlilegs sambands ríkis og kirkju. Strangt til tekið brjóta þátttakendur bingósins svokölluð helgidagalög, sem fjalla um það hvað landsmenn mega og mega ekki gera á helgidögum ríkiskirkjunnar.
Aðspurður hvort lögreglan hafi haft afskipti af gestum bingósins segir Sindri að hún hafi látið duga að skoða viðburðinn úr fjarlægð. „Lögreglan hefur aldrei gert meira en að keyra bara framhjá.“
Meðal vinninga sem voru í boði voru hefðbundnir vinningar á borð við páskaegg auk óhefðbundinna vinninga á borð við barnabókina „Félagi Jesú“ sem mætti harðri gagnrýni þegar hún var gefin út árið 1978.
Félagið Vantrú var stofnað árið 2003. Yfirlýst markmið félagsins er að veita mótvægi við boðun hindurvitna og vinna gegn áhrifum þeirra í samfélaginu, svosem skipulögðum trúarbrögðum, skottulækningum og gervivísindum.