Margir Sauðkrækingar ráku upp stór augu þegar þeir litu út um gluggann í morgun. Þar blöstu við hundruð snjóbolta sem náttúran hafði búið til - ein og óstudd. Um var að ræða afar sjaldgæft fyrirbæri sem er öllu þekktara á köldum slóðum Norður-Ameríku, en sést þó stöku sinnum hér á landi.
„Þetta var bara klikkað. Mér fannst þetta rosalega skemmtilegt,“ segir Ragnar Páll Tómasson Árdal, í samtali við mbl.is, en hann tók meðfylgjandi myndir af þessum vindgerðu snjóboltum eða „snjórúllum“, eins og hægt væri að kalla fyrirbærið.
„Pabbi minn sagði að þetta hefði einnig komið fyrir einhverjum vikum síðan, en annars hef ég aldrei séð þetta áður.“ Eins og áður sagði er fyrirbærið einstaklega sjaldgæft, en þó hafa reglulega á undanförnum árum borist fregnir af þessum snjóboltum á dreif um sléttar og snævi þaktar grundir hér á landi.
Ragnar Páll segir að snjóboltarnir hafi verið fjölmargir. „Þeir voru út um allt - um allan bæinn. Það var ekki snjór án þess að svona rúlla væri ofan á honum.“
Á vef Veðurstofunnar segir að stærstu boltarnir af þessu tagi, sem getið er um í gögnum Veðurstofunnar, séu þeir sem Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lýsti í pistli í tímaritinu Veðrinu árið 1957.
Hann sá þá boltana í Selskarði, nærri Næfurholti á Rangárvöllum, þann 5. febrúar árið 1956 eftir að ofsaveður hafði gengið yfir.
„Á þessari göngu sá ég þau kynlegu ummerki eftir ofviðrið, sem teikningin á að sýna. Það voru snjókúlur, sem höfðu bersýnilega oltið undan veðrinu, hlaðið utan á sig og stækkað, unz þær urðu storminum ofviða og staðnæmdust. Austur frá hverri kúlu sást greinilega slóðin, sem hún hafði oltið um leið og hún safnaði utan á sig snjónum. Sú slóð var í engu frábrugðin þeirri, sem verður eftir, þegar krakkar velta snjóboltum, nema fótspor sáust engin.
Kúlurnar voru af mörgum stærðum, margar sem mannshöfuð, en hinar stærstu allt að 1 metri að þvermáli eða á stærð við heybagga. Þær lágu á víð og dreif alls staðar á leið minni heiman frá bæ og austur úr Selskarði, en voru langstærstar í skarðinu, enda var hvassast þar,“ segir Guðmundur meðal annars í pistlinum.
Fyrir áhugasama má lesa meira um boltana hér.