Ekki að undirbúa forsetaframboð

Katrín Jakobsdóttir formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Ómar Óskarsson

„Við erum alltaf að tala um stjórnmálaflokka sem fastar einingar, en mér finnst ekki að við eigum að gera það,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í viðtalsþættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hún sagði stjórnmálin vera að ganga í gegnum breytingaskeið sem sé ekki búið. 

„Mér finnst að flokkarnir á Íslandi séu að ganga í gegnum breytingar og ég útiloka ekki að þær breytingar eigi eftir að vera meiri,“ sagði Katrín aðspurð um sameiningu stjórnmálaflokka.

„Ég sé ekki endilega fyrir mér flokkasameiningar eins og þetta liggur núna, en ég held að það geti alveg orðið frekari breytingar.“

Hún sagði að nú í dag væru flokkar t.d. að starfa saman að tilteknum málum á þingi, þvert á flokka. „En ég hugsa bara einn dag í einu og vil ekki spá lengra,“ sagði Katrín.

Gott andrúmsloft

Sigurjón M. Egilsson, þáttastjórnandi, spurði Katrínu m.a. hvernig væri að hafa Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi formann VG, og Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingflokksformann, í þingflokknum, en þeir voru stofnfélagar í VG á sínum tíma.

Sigurjón spurði hvort að þeir tveir væru til trafala?

„Ég er stundum spurð að þessu,“ svaraði Katrín. „Við vinnum bara saman sem ein heild. Mér hefur sýnst að aðrir formenn eigi í meiri vandræðum með fyrrverandi formenn. Það eru allaf einhverjar spekúlasjónir með þetta en ég get í sjálfu sér ekki kvartað undan því.  Andrúmsloftið í okkar þingflokki er bara gott.“ 

Katrín bætti svo við: „Það hefur áhrif að vera með fyrrverandi formann og þingflokksformann í þingflokki.“

Sigurjón: „Það munar um þessa menn?“

Katrín: „Já, heldur betur. En það skiptir máli hvernig maður lítur sjálfur á þetta. Í mínu tilfelli þá er það bara hópurinn sem maður er að vinna með. Maður vinnur með þann hóp sem maður hefur hverju sinni og reynir bara að leyfa öllum að njóta sín, sama hver saga þeirra er.“

Sigurjón spurði Katrínu hverjir framtíðardraumarnir væru, vill hún verða forsætisráðherra?

„Eins og ég segi ég á svo erfitt með að hugsa langt fram í tímann. Ég veit það nú alveg að það er ýmislegt sem ég á eftir að gera í lífinu. [...] En akkúrat núna einbeiti ég mér að því sem ég er að gera.“

Fengið nokkrar áskoranir

Sigurjón spurði Katrínu hvort að hún vildi verða forseti.

„Ég hef ekki séð mig í því,“ sagði Katrín. Hún sagði að nokkrir hefðu nefnt það við sig, „örfáir en enginn fjöldahreyfing.“

Hún sagðist hafa fengið nokkrar áskoranir sem sér þætti vænt um, m.a. eina frá ungri stúlku á grunnskólaaldri. „En ég hef nú ekki séð mig fyrir mér í þessu.“

Sigurjón gekk frekar á Katrínu sem sagði að lokum: „Ég segi alveg satt, ég hef ekki séð mig fyrir mér í þessu.“

Sigurjón spurði þá hvort hún væri að undirbúa framboð? „Nei ég er ekki að undirbúa framboð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert