Rithöfundurinn Stefán Máni segir að ástæðan fyrir því að unglingar lesi ekki meira sé einföld; þeir hafi hreinlega ekkert nógu skemmtilegt að lesa. Hann ákvað að bæta sjálfur úr því með nýrri bók.
„Þeir hafa bara ekkert skemmtilegt að lesa, sérstaklega ekki á íslensku. Unglingar sem lesa mikið, þeir lesa á ensku. Þetta er ekki unglingunum að kenna,“ segir Stefán Máni sem er í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina.
„Það þýðir ekkert að skamma unglingana og henda í þá Þorgrími Þráins. Það er alltaf verið að reyna að troða einhverjum barnabókum í þá, það þýðir ekki neitt. Krakkar lesa upp fyrir sig, þannig er það bara.“
Stefán Máni var að senda frá sér ungmennabókina Nóttin langa, sem er önnur bókin í Úlfshjarta-bókaflokknum og segir frá varúlfunum Alexander og Védísi.