Í síðustu viku lagði Brandur Bjarnason Karlsson upp í fjögurra daga hringferð um landið ásamt góðum hópi fólks. Brandur lenti margsinnis í vandræðum á meðan á hringferðinni stóð en þessi vandræði voru ekki bara viðbúinn heldur í rauninni tilgangur ferðarinnar þar sem hópurinn vildi sýna fram á hversu slæmt aðgengi er fyrir fólk í hjólastól víðast hvar á landsbyggðinni.
Frétt mbl.is: Vekja máls á aðgengi fatlaðra
Brandur, sem er lamaður og bundinn við hjólastól, segir að áberandi hafi verið hversu lélegt aðgengi var víðast hvar utan Akureyrar og Reykjavíkur og nefnir hann sérstaklega Suðurlandið. „Það var líka sérlega áberandi hvað ríkisstofnanir eru lélegar í þessum málum, maður hefði haldið að þær ættu að vera til fyrirmyndar,“ segir Brandur.
Ein ríkisstofnun stendur þó upp úr þegar kemur aðgengi að sögn Brands.
„ÁTVR var alveg til fyrirmyndar sem er svolítið kaldhæðnislegt,“ segir hann en bætir við að ástæðuna megi líklega rekja til annars en sjónarmiða um aðgengi fatlaðra. „Fólk þarf auðvitað að komast inn og út úr búðinni með kerrur. Það virðist vera gegnumgangandi að þar sem kerrur þurfa að fara um er aðgengi alveg til fyrirmyndar sem sýnir að þetta er hægt ef viljinn er fyrir hendi.“
Brandur segir lélegt aðgengi yfirleitt orsakast af hugsunarleysi en ekki skorti á vilja. „Það hefur aldrei neinn af þeim sem ég talaði við lent í því að einhver segi: Nei, við viljum ekki fatlað fólk.“
Brandur segir að viljinn sé í raun fyrir hendi en að þegar komi að því að fylgja orðum eftir með aðgerðum virðist skorta drifkraft.
„Við töluðum mikið við fólk sem býr á landsbyggðinni og meðal annars ræddum við við mann sem hefur búið á Vík í Mýrdal í 30 ár og hann segir að í raun hafi ekkert breyst á þeim tíma,“ segir Brandur.
Hann segist vonast til þess að ferð hópsins hafi vakið athygli á málefninu og að hann hyggist halda áfram að beita sér fyrir bættu aðgengi, þó enn sé óljóst með nákvæmlega hvaða hætti það verði.
„Ég hef fengið mjög átakanleg símtöl héðan og þaðan af landinu þar sem fólk er að biðja mig um að koma í heimsókn og gera úttekt á stöðu mála. Fólk sér ekki að það geti búið til frambúðar á þessum stöðum,“ segir Bjarki. Hann segir fólk hrökklast frá landsbyggðinni vegna aðgengismála en að vandamálið sé þó einnig til staðar á höfuðborgarsvæðinu.
„Ef þú lendir í hjólastól á Íslandi hverfa frá þér jafnvel meira en 90% af öllum veitinga- og viðkomustöðum sem þú gætir annars heimsótt. Þetta litla land verður töluvert minna fyrir vikið og þá sérstaklega úti á landi,“ segir Brandur.
Á ferð sinni um landið ræddi hópurinn meðal annars við landverði og fólk hjá umhverfisstofnunum sem Brandur segir hafa verið hneykslað vegna lélegs aðgengis á ferðamannastöðum.
„Það hefur verið farið í milljóna króna framkvæmdir á sumum stöðum með miklum breytingum og svo hefur kannski þurft bara örlítið meira upp á til þess að bæta aðgengi fyrir hjólastóla en því hefur verið sleppt. Það er verið að spara krónur þegar verið er að eyða þúsundköllum.“
Brandur segir að ákveðnar hugmyndir séu uppi um lagabreytingar til þess að bæta aðgengi og að þær hugmyndir snúi einna helst að eftirliti.
„Brunavarnareftirlitinu var til að mynda komið á af því að það var ekki verið að fylgja eftir lögum um brunavarnir. Það hafa komið upp hugmyndir um að koma þurfi á slíku í tengslum við aðgengismál,“ segir Brandur og bendir jafnframt á að ýmis göt sé að finna í regluverki um aðgengi.
„Reglurnar í dag segja að fyrirtæki og stofnanir verði að hafa einhverskonar plan um hvernig ætlunin sé að bæta aðgengismál en það eru engar reglur sem segja að það verði að framfylgja þessum plönum.“