12 símum stolið sama kvöldið á b5

iPhone 6 er vinsælt góss óprúttinna aðila.
iPhone 6 er vinsælt góss óprúttinna aðila. AFP

Í það minnsta 12 símum var stolið á skemmtistaðnum b5 aðfararnótt laugardags. Eigendur símanna eru ungar konur og er í nær öllum tilvikum er um nýlega iPhone síma að ræða. Nýjustu iPhone símarnir, iPhone 6 og 6 Plus kosta allt frá um 86 þúsund krónum upp í um 130 þúsund eftir því hvar þeir eru keyptir og er því ljóst að samanlagt hleypur tjónið á um milljón íslenskra króna.  

„Áður en að mínum síma var stolið voru tveir símar vinkvenna minna búnir að hverfa svo ég var sérlega meðvituð um að ég þyrfti að passa mig,“ segir ung kona sem stödd var á b5 á föstudagskvöldið en vill ekki láta nafn síns getið. Hún segir símann hafa verið í veski hennar sem var fyrir framan hana allt kvöldið og að því skilji hún hreint ekki hvernig þjófnum tókst að grípa hann.

Þegar konan tók að leita að símanum sínum kom í ljós að símar þriggja annarra kvenna höfðu verið teknir ófrjálsri hendi og daginn eftir sá hún á Facebook hópnum Beauty tips að sex símar í viðbót höfðu glatast.

„Það er náttúrulega ekkert eðlilegt að það sé svona miklu magni af símum stolið eitt kvöld. Þetta er fáránleg upphæð sem glatast,“ segir konan. 

„Eins og staðan er núna þá getur maður ekki kært fyrr en á morgun en b5 verður auðvitað að bregðast við þessu máli,“ heldur hún áfram en tekur fram að hún sé vonlítil um að hinir seku finnist á öryggismyndavélum staðarins.

Hún kveðst hafa rætt við lögregluyfirvöld og fengið þær upplýsingar að afar algengt sé að pokar með símum finnist á víðavangi. „Ég var með iPhone 6 og þjófar hafa ekkert not fyrir hann því síminn er læstur. Það er svo mikið magn af símum sem er stolið sem er ekkert hægt að gera neitt við.“

Konan segir starfsfólk í Nova hafa sagt henni að fyrir skömmu hafi einstaklingur komið til þeirra með 10 til 15 síma sem viðkomandi fann úti.

Björn Jakobsson eigandi b5 segir að um lögreglumál sé að ræða og að hann vilji ekki tjá sig um þjófnaðinn. Engar upplýsingar fengust hjá lögreglu vegna málsins.

Bankastræti 5 þar sem skemmtistaðurinn b5 er til húsa.
Bankastræti 5 þar sem skemmtistaðurinn b5 er til húsa. Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert