Atkvæðagreiðsla meðal aðildarfélaga Starfsgreinasambandins um boðun verkfalls hefst næsta mánudag, 13. apríl, og er undirbúningur í fullum gangi.
Björn Snæbjörnsson, formaður sambandsins, sagði í Morgunblaðinu í dag að félögin stefndu að því að hefja verkföll um næstu mánaðamót.
Fyrri atkvæðagreiðsla félaganna var dæmd ólögmæt í félagsdómi og segir á vef SGS að því sé hún endurtekin núna og greint á milli aðildarfélaga innan SGS og þeirra samninga sem kosið er um. „Aldrei hefur verið dæmt í svona máli áður en ljóst er að SA ætlar að beita lagaklækjum frekar en að setjast að samningaborðinu,“ segir á vefnum.
Atkvæðagreiðslan hefst á mánudaginn 13. apríl klukkan átta og verður í rafrænu formi. Félagsmenn fá sent lykilorð í pósti á mánudag eða þriðjudag.