Þrír sóttu um stöðu formanns Bandalags háskólamanna eftir að hún var auglýst en eins og áður hefur komið fram mun uppstillingarnefnd bandalagsins tilnefna Þórunni Sveinbjarnardóttur í embættið á aðalfundi BHM hinn 22. apríl. Ólíklegt þykir að mótframboð berist á fundinum sjálfum og verður að teljast líklegt að Þórunn muni taka við af núverandi formanni, Páli Halldórssyni, sem ekki sækist eftir endurkjöri.
„Mér finnst þetta mjög áhugaverður vettvangur, að fara inn í kjaramál háskólafólks,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is um ástæður þess að hún sækist eftir starfinu. „Þetta er auðvitað fjölbreyttur hópur og mér finnast þau verkefni sem bíða bæði ögrandi og skemmtileg þó svo að þau séu kannski ekki öll auðveld.“
Þórunn sat á þingi fyrir Samfylkinguna í 12 ár og gegndi m.a. embætti umhverfisráðherra en síðastliðin tvö ár hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri flokksins. Aðspurð hvort leiðir hennar og Samfylkingarinnar skilji nú fyrir fullt og allt segir Þórunn svo ekki vera. „Eigum við ekki bara að orða það þannig að lífssýn mín breytist ekki þó að ég skipti um starfsvettvang.