Réttarstaða Ólafs Ólafssonar er til skoðunar hjá verjendum hans í Al-Thani málinu í ljósi þess hvort farið hafi verið mannavillt á honum og öðrum manni með sama fornafni við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Ólafur var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrr á árinu vegna aðildar sinnar að málinu og hefur þegar hafið afplánun.
Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs, segir í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að Ólafur sé ekki Óli sem rætt sé um í símtali sem hafi verið á meðal gagna ákæruvaldsins. Þar sé um að ræða lögfræðing með sama fornafn. Björn Þorvaldsson saksóknari, sem sótti málið fyrir hönd embættis sérstaks saksóknara, sagði í samtali við mbl.is í morgun að það væri ekki rétt að farið hafi verið mannavillt. Þess utan hefði símtalið enga úrslitaþýðingu haft fyrir niðurstöðu málsins.
Þórólfur Jónsson, lögmaður Ólafs, segir að málið verði væntanlega í kjölfarið leyst fyrir réttum yfirvöldum. Spurður hvort hann telji að farið hafi verið mannavillt með þeim hætti sem Ingibjörg lýsi segir hann að honum virðist allt benda til þess.