„Þetta er klárlega Ólafur Ólafsson sem rætt er um í þessu símtali sem vitnað er til. Þess utan er það þannig að það er sægur af öðrum gögnum sem benda á Ólaf Ólafsson. Það er ekki eins og málið standi og falli með þessu símtali.“
Þetta segir Björn Þorvaldsson saksóknari í samtali við mbl.is en hann sótti Al-Thani-málið fyrir hönd embættis sérstaks saksóknara.
Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar sem dæmur var í Hæstarétti í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrr á árinu fyrir aðild að málinu, fullyrðir í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að í símtalinu sé ekki átt við eiginmann sinn heldur lögfræðing með sama fornafn sem sé sérfræðingur í lögum um kauphallarviðskipti. Björn segir þetta einfaldlega misskilning hjá Ingibjörgu.
Þrír fyrrverandi yfirmenn hjá Kaupþingi banka fengu fangelsisdóma vegna Al-Thani-málsins auk Ólafs. Ólafur hefur þegar hafið afplánun dómsins.
Frétt mbl.is: Segir Óla vera lögfræðing, ekki eiginmann sinn