Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, stendur við ummæli sín um að Hæstiréttur hafi farið mannavillt í rökstuðningi sínum í Al Thani-málinu. Ólafi hafi verið ruglað saman við lögmanninn Ólaf Arinbjörn Sigurðsson.
„Það sem ég vildi vekja athygli á og fjölmörgum öðrum er kunnugt um er sú staðreynd að umræddur „Óli“ er bara allt annar maður en Ólafur Ólafsson,“ segir Ingibjörg í tilkynningu sem hún sendi fjölmiðlum í kvöld.
Björn Þorvaldsson saksóknari sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að í símtalinu, sem lagt var fram við meðferð málsins, hefði verið fjallað um Ólaf Ólafsson. Það sé ljóst. „Þess utan er það þannig að það er sægur af öðrum gögnum sem benda á Ólaf Ólafsson. Það er ekki eins og málið standi og falli með þessu símtali,“ sagði Björn.
Ólafur var dæmdur í Hæstarétti í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrr á árinu fyrir aðild sína að málinu.
Ingibjörg segir saksóknara málsins gera lítið úr athugasemdum sínum. Það sé dagljóst af lestri dómsins að símtal tveggja manna þar sem „Óli“ kemur við sögu sé lykilatriði fyrir sakfellingu eiginmanns hennar í málinu.
Tilkynning Ingibjargar í heild sinni:
Ég leyfði mér að birta athugasemdir mínar við dóm Hæstaréttar í Al Thani-málinu í grein í Fréttablaðinu í dag. Þar gerði ég grein fyrir því að mér sýndist eiginmaður minn hafa verið ranglega sakfelldur í málinu og benti á nafnabrengl sem fram koma í dóminum. Ég sé að Björn Þorvaldsson saksóknari gerir lítið úr þessu í viðtali við mbl.is í dag og heldur því fram um leið að „fjölmörg atriði“ sýni þátttöku Ólafs í málinu. Fyrir mér er kokhreysti Björns Þorvaldssonar ekkert nýmæli. Hvað sem orðum hans líður er alveg dagljóst af lestri dómsins, að símtal tveggja manna þar sem „Óli“ kemur við sögu er lykilatriði fyrir sakfellingu eiginmanns míns í málinu. Það sem ég vildi vekja athygli á og fjölmörgum öðrum er kunnugt um er sú staðreynd að umræddur „Óli“ er bara allt annar maður en Ólafur Ólafsson.
Mér finnst rétt, ekki síst vegna viðbragða saksóknarans, að tilfæra hér nokkur atriði orðrétt úr V. kafla dóms Hæstaréttar. Þar segir:
„Símtal, sem EH og BÓ áttu 17. september 2008, hefur áður verið rakið í nokkru máli, en af fyrirliggjandi gögnum verður séð að EH hafði rétt fyrir það sent BÓ tölvubréf, sem fyrrgreint skipurit fylgdi. Af upphafi samtalsins verður ekki annað ráðið en að þeir hafi á fyrri stigum átt orðaskipti um efnið, sem skipuritið varðaði, þótt gögn liggi ekki að öðru leyti fyrir um það í málinu. Ítrekað kom fram í þessu símtali að BÓ hafi rætt við„Óla“, sem hann kaus að nefna svo og bersýnilega var ákærði Ólafur, um ýmis atriði í tengslum við viðskipti með hlutabréfin. Án tillits til þess hvort BÓ hafi þar tjáð sig sem umboðsmaður ákærða Ólafs, sem ummæli hans benda þó eindregið til, eða aðeins sem viðmælandi ákærða Ólafs í þágu Kaupthing Bank Luxembourg S.A. getur engin skynsamleg ástæða verið til að efast um að orð BÓ í símtalinu hafi verið reist á samræðum hans við ákærða Ólaf. Í símtalinu kom margsinnis fram að álitaefni hafi verið uppi um hvort þátttaka ákærða Ólafs íf jármögnun Q Iceland Holding ehf. til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. gæti valdið því aðflöggunarskylda eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 108/2007 myndi kvikna og kvaðst BÓ hafa rætt við ákærða Ólaf um það. ……… Ekki getur leikið vafi á því að orðaskipti EH og BÓ í símtalinu um tilhögun og kjör á láni frá sérstöku fjárfestingarfélagi í jafnri eigu ákærða Ólafs og MAT til Q Iceland Holding ehf. hafi tekið mið af því að „grundvallarspurningin er náttúrulega … er flöggun þarna eða ekki“, svo sem BÓ tók til orða, og hafi viðfangsefni þeirra því snúist um aðl eita leiða til að gera ákærða Ólaf og MAT eins setta og hefðu þeir sjálfir veitt félagi í sameign sinni lán til kaupa á hlutabréfunum og notið þannig án milliliða hugsanlegs arðs af kaupunum. …….. Er á þessum grunni hafið yfir skynsamlegan vafa að frá öndverðu hafi verið gengið út frá því að í viðskiptunum um hlutabréfin yrði mynduð leið til að láta ákærða Ólaf njóta til jafns viðMAT hugsanlegs arðs af hlutunum, sem félag í einkaeign þess síðarnefnda myndi kaupa í Kaupþingi banka hf. með lánsfé sem að uppruna stafaði frá þeim báðum.“
Orðalagið „er á þessum grunni“ o. s. frv. sýnir að mínu áliti ljóslega að önnur gögn hafa ekki verið til staðar um sönnun fyrir þeim ályktunum sem þarna voru kynntar.
Sá „Óli“ sem rætt var um símtalinu er Ólafur Arinbjörn Sigurðsson lögmaður, sérfróður um verðbréfaviðskipti og starfaði þá og starfar enn á sömu lögmannsstofu og Bjarnfreður Ólafsson sem tilgreindur er í hinum tilvitnaða texta.