Hreyfihamlaður einstaklingur í hjólastól, sem þarf á aðstoðarmanni að halda í daglegu lífi, getur ekki farið á tónleika í Laugardalshöll án þess að borga miða fyrir aðstoðarmanninn að auki. Kemur þetta fram í tölvupósti sem Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins, fékk frá miðasölufyrirtækinu midi.is fyrr í dag.
Guðjón segir í samtali við mbl.is að þetta hafi komið sér sérkennilega fyrir sjónir. „Að þurfa að borga fullt verð fyrir aðstoðarmann er alveg úti í skurði,“ segir hann og tekur fram að erlendis sé einungis hann rukkaður fyrir aðgang að tónleikum, ekki aðstoðarmaðurinn. „Þetta virðist vera í menningunni hérna. Menn vilja bara græða.“
Hann segir skilning oft skorta hér á landi á aðstöðu fatlaðra sem vilja sækja tónleika. „Það er enginn að reyna að svindla sér inn. Viðkomandi þarf aðstoðarmann hreinlega til að geta sótt tónleikana. Það mætti útvega eyrnatappa eða eitthvað ef þeir eru hræddir um að aðstoðarmaðurinn njóti tónleikanna,“ segir Guðjón kíminn.
Umræddir tónleikar eru þeir sem Tom Jones mun leika á þann 8. júní næstkomandi, í Laugardalshöll. Þegar blaðamaður mbl.is hafði samband við tónleikahaldarann, Guðbjart Finnbjörnsson, hafði hann ekki heyrt um málið. Honum þótti hins vegar sjálfsagt að aðstoðarmaður Guðjóns fengi frítt inn á tónleikana.
„Ef einhver mikill Tom Jones aðdáandi þarf að hafa aðstoðarmann með sér þá finnst mér það nokkuð sjálfsagt mál að hann fái það án þess að þurfa að borga nokkuð aukalega fyrir,“ sagði Guðbjartur í samtali við mbl.is í morgun. Síðar í dag, eftir að mbl.is hafði leitt þá Guðjón og Guðbjart saman, varð úr að aðstoðarmaður Guðjóns fengi frían aðgang að tónleikunum.
Ragnar Árnason framkvæmdastjóri midi.is segir í tölvupósti til mbl.is að fyrirtækið reyni að bregðast við öllum fyrirspurnum sem berast auk þess „að leysa þær með viðkomandi eftir fremsta megni og koma viðkomandi í samband við viðburðahaldarana þegar svo ber undir...Það er okkar reynsla að viðburðarhaldarar leysa þ.h. mál með farsælum hætti, rétt eins og í þessu tilviki sem um ræðir.“ Tekur hann einnig fram að fyrirtækið sjái einungis um að selja miða á viðburði. Allar ákvarðanir sem snúi að viðburðunum sjálfum séu í höndum viðburðarhúsa- og haldara.
Hér að neðan fylgir fyrirspurn Guðjóns til miðasölufyrirtækisins og svar fyrirtækisins, sem vísað er til í byrjun fréttarinnar.
Sæl,
Hvernig get ég tryggt mér miða á tónleika Tom Jones? Ég er í rafmagnshjólastól og þarf aðstoðarmann með mér.
Kveðja
Gaui
Sæll,
Þegar um hjólastóla er að ræða í Laugardalshöll á sitjandi tónleika þá kaupir fólk á Svæði A, best er að þessir aðilar kaupi endasæti eða sæti nr 1 á Svæði A. Aðstoðarmenn þurfi líka að kaupa miða á fullu verði.
Bestu kveðjur / Best Regards
Þjónustuver Midi.is