Allsherjarverkfall hefst á morgun

Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, mætir til fundar í dag.
Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, mætir til fundar í dag. Ljósmynd/Ómar

Fundi samninganefndar ríkisins og fulltrúa Bandalags Háskólamanna lauk laust fyrir klukkan 16 í dag án þess að samningar næðust í kjaradeilu félagsins.

Páll Halldórsson, formaður BHM, segir að næsti fundur í deilunni fari fram á föstudag. Segir hann að þá verði sjálfsagt hægt að halda áfram að ræða ýmisleg efnisleg atriði sem ekki snerta fjármagn. Til þess að hægt sé að leysa deiluna þurfi hinsvegar peninga.

„Samninganefnd ríkisins þarf víðtækara umboð, það sem þau hafa núna dugar ekki til að leysa þessa deilu,“ segir Páll Halldórsson

„Við höfum sagt að það vanti meira efni inn frá því að stofnunarsamningar voru teknir upp. Þeim var ætlað að láta starfsmenn njóta hagræðingar. Síðan er búinn að vera endalaus niðurskurður og í staðinn fyrir að starfsmenn njóti hagræðingar þurfa þeir að taka á sig niðurskurðinn.“

Á morgun verður allsherjarverkfall hjá 17 aðildarélögum BHM. Nú þegar eru 560 félagsmenn í verkfalli sem hófst þann 7. apríl og verða rúmlega 3000 félagar alls í verkfalli þann 9. apríl. Verkfall morgundagsins stendur yfir frá kl. 12 til 16 nema hjá Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands en þar standa aðgerðir frá 19 til 23. Félagsmenn munu ekki frá greiðslur úr verkfallsjóðum fyrir þetta verkfall en eins og mbl.is hefur áður greint frá segir BHM þó nóg til í sjóðunum vegna komandi verkfallsboðanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert