Friðriki Eysteinssyni, sem óskaði eftir skýrslu er varðar vinnuumhverfi viðskiptafræðideildar háskólans, hefur verið stefnt af Háskóla Íslands. Skólinn krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem skólanum var gert að verða við beiðni Friðriks um aðgang að skýrslunni.
„Mín eina sök í málinu er sú að hafa óskað eftir afriti af ákveðinni skýrslu eins og ég á rétt á og hafa síðan kært höfnun Háskóla Íslands á afhendingu hennar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál,“ segir Friðrik í fréttatilkynningu sem hann hefur sent frá sér vegna málsins.
„Hin raunverulega ástæða Háskóla Íslands fyrir því að berjast gegn því með kjafti og klóm að ég fái afrit af umræddri skýrslu kristallast í eftirfarandi setningu í bréfi hans til úrskurðarnefndarinnar. Það kæmi sér mjög illa fyrir deildina og háskólann í heild ef skýrslan yrði gerð opinber,“ segir Friðrik einnig í fréttatilkynningu.
Háskólinn sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem kom fram að Félagsvísindasvið HÍ hygðist ekki afhenda skýrsluna, heldur hefði verið ákveðið af hálfu skólans að höfða mál til að freista þess að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndar.
Frétt mbl.is: Ætla ekki að afhenda skýrsluna