Ísland stendur hinum norrænu þjóðunum langt að baki

Opinber framlög til þróunarsamvinnu voru óbreytt á síðasta ári miðað við árið á undan en árið 2013 var metár, að því er fram kemur í frétt frá DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD í morgun, en þá birtist nýr listi yfir framlög þjóða til þróunarsamvinnu. Íslendingar ráðstöfuðu 0,21% af þjóðartekjum til þróunarmála, eru talsvert fyrir neðan meðaltal DAC-ríkjanna eins og myndin sýnir, og standa öðrum norrænum þjóðum langt að baki. 

Fjallað er um málið í Heimsljósi í dag, fréttabréfi Þróunarsamvinnustofnunar.

Hinar norrænu þjóðirnar eru meðal sjö rausnarlegustu þjóða heims, Svíar í efsta sæti með rúmlega 1% þjóðartekna í framlög til þróunarmála, Norðmenn og Danir sjónarmun á eftir og Finnar í sjöunda sæti með 0,6%.

Í frétt DAC kemur fram að framlög til fátækustu ríkja heims haldi áfram að minnka. Tvíhliða aðstoð við þau ríki hafi dregist saman um 16% milli ára. Tvíhliða aðstoð nemur rúmlega 2/3 hluta allrar opinberrar þróunaraðstoðar.

Alls námu framlög til þróunarmála 135,2 milljörðum bandaríkjadala á síðasta ári. Meðaltal DAC ríkjanna var 0,29%.  Eins og sést á myndinni verja fimm þjóðir meira fjármagni til málaflokksins en viðmið Sameinuðu þjóðanna - 0,7% - gerir ráð fyrir, þ.e. Svíar, Lúxemborgarar, Norðmenn, Danir og Bretar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert